Umfangsmesta truflun á breskum flugsamgöngum í tæpan áratug, er upp kom á mánudaginn, mun að öllum líkindum kosta flugfélög 100 milljónir punda, jafnvirði 16,5 milljarða íslenskra króna er upp verður staðið. Byggir upphæðin á mati Alþjóðaflugmálastofnunarinnar IATA.
„Ég myndi ætla að aukakostnaður vegna þessa verði um hundrað milljónir punda,“ segir Willie Walsh, forstjóri IATA, við breska ríkisútvarpið BBC. „Þetta er mjög ósanngjarnt þar sem flugumferðarstjórnarkerfið á bak við þessa bilun greiðir ekki eitt pens.“
Felst gríðarlegur kostnaður flugfélaga meðal annars í því að koma strandaglópum í önnur flug og finna fjölda manns gistingu.
Dregur Walsh skýringar flugumferðarstofnunar Bretlands, National Air Traffic Services, á biluninni stórlega í efa og kveður kerfið hljóta að vera hannað þannig að það vísi röngum upplýsingum á bug í stað þess að allt gangverkið sigli í strand með gríðarlegum afleiðingum.
„Sé þetta rétt sýnir það fram á umtalsverðan veikleika sem hlýtur þá að hafa verið til staðar um hríð og ég er steini lostinn sé það orsökin,“ segir hann. Breska stjórnin hefur fyrirskipað rannsókn á málinu sem hún segir ekki komið til vegna netárásar. Skýringin á hins vegar að vera „óvenjuleg gögn“ sem ollu kerfishruni.