Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er mættur til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu þar sem reiknað er með hann greini frá aukinni fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna við gagnsókn hers Úkraínu í stríðinu við Rússland.
Bandaríkjamenn eru reiðubúnir að leggja Úkraínumönnum til einn milljarð bandaríkjadala en sú upphæð jafngildir 134 milljörðum króna.
Gagnsókn Úkraínumanna hefur reynst ganga hægar en vonir voru bundnar við en á síðustu dögum hefur náðst betri árangur gegn innrásarhernum í suðausturhluta Úkraínu.
Þetta er fjórða heimsókn Blinkens til Kænugarðs frá því Rússar hófu stríðið gegn Úkraínumönnum.