Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur lýst því yfir að leiðtogafundur G20-ríkjanna á Indlandi hafi verið árangursríkur. Fundinum lauk í morgun.
„Okkur tókst að koma í veg fyrir tilraunir Vesturlanda til að Úkraínuvæða dagskrá leiðtogafundarins,“ sagði Lavrov þegar tveggja daga fundi leiðtoganna lauk í morgun. Vladimír Pútín mætti ekki fyrir hönd Rússlands á fundinn og var Lavrov sendur í hans stað.
Ekki var vísað sérstaklega til Rússlands í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins, ólíkt því sem kom fram í yfirlýsingu G20-ríkjanna á Balí í fyrra. Þá var vitnað í ályktun Sameinuðu þjóðanna þar sem stríð Rússlands gegn Úkraínu var harðlega fordæmt.
Við lok fundarins afhenti Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fundarhamarinn til Luiz Inacio Lula da Silva, forseta Brasilíu, en á næsta ári mun Brasilía gegna formennsku og verður fundur G-20-ríkjanna því haldinn í Brasilíu.
Lula hefur sagt að með formennsku sinni muni Brasilía forgangsraða málefnum eins og fátækt, sjálfbærri þróun og meintum umbótum á alþjóðastofnunum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Sameiginleg yfirlýsing fundarins sem samþykkt var í gær eyddi engu letri í innrás Rússlands í Úkraínu.
Í yfirlýsingunni segir að „öll ríki“ ættu að „forðast hótanir eða valdbeitingu til að reyna að ná yfirráðum yfir landsvæði gegn landhelgi, fullveldi eða pólitísku sjálfstæði nokkurs ríkis“.
Talsmaður úkraínska utanríkisráðuneytisins fordæmdi þessa yfirlýsingu.
„Úkraína er þakklát vinaþjóðum sem reyndu að setja sterkt orðalag í textann. Á sama tíma, hvað varðar yfirgang Rússa gagnvart Úkraínu, hefur þessi 20 manna hópur ekkert til að vera stoltur af,“ sagði Oleg Nikolenko, talsmaður úkraínska utanríkisráðuneytisins.
Afríkusambandinu var í gær hleypt inn í hóp G20-iðnríkjanna og hófst fundurinn í gær á því að bjóða Azali Assoumani, forseta Afríkusambandsins, að taka sæti við hlið hinna leiðtoganna.
Fyrir fundinn samanstóð G20 af 19 löndum og Evrópusambandinu.
Í Afríkusambandinu eru 55 þjóðir en sex þjóðir undir herforingjastjórnum eru nú í banni hjá sambandinu.