Komu í veg fyrir „Úkraínuvæðingu“ fundarins

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tekur í höndina á Narendra Modi, …
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tekur í höndina á Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. AFP/Utanríkisráðuneyti Rússlands

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur lýst því yfir að leiðtogafundur G20-ríkjanna á Indlandi hafi verið árangursríkur. Fundinum lauk í morgun.

„Okkur tókst að koma í veg fyrir tilraunir Vesturlanda til að Úkraínuvæða dagskrá leiðtogafundarins,“ sagði Lavrov þegar tveggja daga fundi leiðtoganna lauk í morgun. Vladimír Pútín mætti ekki fyrir hönd Rússlands á fundinn og var Lavrov sendur í hans stað.

Ekki var vísað sér­stak­lega til Rúss­lands í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins, ólíkt því sem kom fram í yf­ir­lýs­ingu G20-ríkj­anna á Balí í fyrra. Þá var vitnað í álykt­un Sam­einuðu þjóðanna þar sem stríð Rúss­lands gegn Úkraínu var harðlega for­dæmt.

Brasilía tekur við formennsku

Við lok fundarins afhenti Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fundarhamarinn til Luiz Inacio Lula da Silva, forseta Brasilíu, en á næsta ári mun Brasilía gegna formennsku og verður fundur G-20-ríkjanna því haldinn í Brasilíu.

Lula hefur sagt að með formennsku sinni muni Brasilía forgangsraða málefnum eins og fátækt, sjálfbærri þróun og meintum umbótum á alþjóðastofnunum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Fordæmdu ekki Rússland beint

Sam­eig­in­leg yf­ir­lýs­ing fundarins sem samþykkt var í gær eyddi engu letri í inn­rás Rúss­lands í Úkraínu.

Í yf­ir­lýs­ing­unni seg­ir að „öll ríki“ ættu að „forðast hót­an­ir eða vald­beit­ingu til að reyna að ná yf­ir­ráðum yfir landsvæði gegn land­helgi, full­veldi eða póli­tísku sjálf­stæði nokk­urs rík­is“.

Talsmaður úkraínska utanríkisráðuneytisins fordæmdi þessa yfirlýsingu. 

„Úkraína er þakk­lát vinaþjóðum sem reyndu að setja sterkt orðalag í text­ann. Á sama tíma, hvað varðar yf­ir­gang Rússa gagn­vart Úkraínu, hef­ur þessi 20 manna hóp­ur ekk­ert til að vera stolt­ur af,“ sagði Oleg Nikolenko, talsmaður úkraínska ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins.

Afríkusambandið komið í G20

Afr­ík­u­sam­band­inu var í gær hleypt inn í hóp G20-iðnríkjanna og hófst fund­ur­inn í gær á því að bjóða Azali Assou­mani, for­seta Afr­ík­u­sam­bands­ins, að taka sæti við hlið hinna leiðtog­anna. 

Fyr­ir fundinn sam­an­stóð G20 af 19 lönd­um og Evr­ópu­sam­band­inu.

Í Afr­ík­u­sam­band­inu eru 55 þjóðir en sex þjóðir und­ir her­for­ingja­stjórn­um eru nú í banni hjá sam­band­inu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert