Kona á flótta frá Norður-Afríku er talin hafa fætt barn í bát á leiðinni til ítölsku eyjunnar Lampedusa. Hið nýfædda barn fannst látið, að því er ítalskir miðlar greindu frá í dag.
Yfir átta þúsund flóttamenn frá Norður-Afríku hafa komið sjóleiðina til Lampedusa síðan á sunnudaginn. Ítalska blaðið Corriere Del Mezzogiorno greindi frá því að móðirinn hafi fengið hjálp frá samferðafólki sínu eftir að hún hóf að fá hríðir.
Barnið var jarðsett í kirkjugarði í Imbriacola-héraði í Lampedusa.
Fyrr í vikunni fannst fimm mánaða barn látið eftir björgunaraðgerð á Lampedusa, sem hafði verið um borð í flóttamannabáti í Norður-Afríku.
Forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, segir landið glíma við umfangsmikla flóttamannabylgju. Hún talar fyrir því að Evrópusambandið setji upp varnir á hafi úti til þess að sporna við vandanum.