Roger Whittaker látinn

Roger Whittaker kom til Íslands árið 200 söng á skemmtistaðnum …
Roger Whittaker kom til Íslands árið 200 söng á skemmtistaðnum Broadway. AFP

Breski dæg­ur­laga­söngv­ar­inn Roger Whitta­ker, sem var meðal annars þekktur fyrir sína sérstöku söngrödd og miklu hæfileika til að flauta, er látinn 87 ára gamall.

Þetta kemur fram í frétt þýska dagblaðsins Bild, en Whittaker er afar vinsæll meðal Þjóðverja. 

Whittaker lést á miðvikudaginn í síðustu viku á spítala í norðanverðu Frakklandi. Með honum á lokastundinni voru Natalie Whittaker, eiginkona hans, og börn. Hann var grafinn á laugardag í kjölfar líkbrennslu.

„Roger var stórbrotinn tónlistarmaður, yndislegur eiginmaður og faðir. Hann hefur komið við svo mörg hjörtu með tónlist sinni á lífsleið sinni og mun alltaf lifa í okkar minni,“ segir í tilkynningu frá fjölskyldu Whittakers.

Heilsa Whittakers hafði verið slæm um hríð. Hann átti við hjartavandamál að stríða og fékk einnig heilablóðfall ekki alls fyrir löngu.

Seldi 55 milljón eintök

Síðustu árin bjó hann í norðanverðu Frakklandi ásamt eiginkonu sinni. Þar höfðu þau búið frá árinu 2011. Hann hafði þó ætlað sér að flytja aftur til Englands, þar sem hann saknaði barna sinna fimm og barnabarnanna tólf.

Whittaker fæddist í Kenýa árið 1936 og tók sín fyrstu skref í tónlistarheiminum árið 1962. Á sínum langa tónlistarferli seldi Whittaker rúmlega 55 milljón eintök af plötum sínum. og naut mikilla vinsælda, aðallega í Englandi, Suður-Afríku, Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Hann var í hópi þeirra sem kallast Íslandsvinir en hann kom til landsins í febrúar árið 2000. Þá tók hann nokkur lög við góðar undirtektir á skemmtistaðnum Broadway, sem þá var og hét.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert