Grefur undan meginstraumsflokkum í Evrópu

Frá mótmælum í Þýskalandi í júlí. Á skilti stendur: „Lestu …
Frá mótmælum í Þýskalandi í júlí. Á skilti stendur: „Lestu sögubók eða spurðu ömmu þína og afa út í hættur og fylgikvilla popúlismans.“ AFP

Tæplega þriðjungur Evrópubúa í dag kýs svokallaða róttæka lýðhyggjuflokka eða popúlistaflokka og víðtækur stuðningur virðist vera við flokka sem setja sig upp á kant við stjórnvöld eða ríkjandi þjóðfélagsskoðanir, það sem á ensku mætti kalla „anti-establishment“.

Breski fjölmiðillinn Guardian framkvæmdi rannsókn í samstarfi við PopuList þar sem í ljós kom að í evrópskum kosningum í fyrra hafi 32% Evrópubúa kosið stjórnmálaflokka sem flokka mætti sem „anti-establishment“.

Á fyrsta áratuginum kusu um 20% Evrópubúa slíka flokka, en aðeins 12% á tíunda áratug síðustu aldar.

Matthijs Roodijn stýrði rannsókninni en hann er stjórnmálafræðingur við Amsterdam-háskólann.

Í rannsókninni kom í ljós að um það bil helmingur atkvæða þessara „anti-establishment“ flokka fara til róttækra hægriflokka, sem eru flokkarnir sem hlotið hafa mesta fylgisaukningu undanfarin ár.

Róttækir sveiflast almennt til hægri

„Það er sveifla en undirliggjandi tilhneigingin er sú að tölurnar halda áfram að hækka,“ segir Rooduijn. „Meginstraumsflokkarnir eru að tapa atkvæðum: „anti-establishment“-flokkarnir eru að auka við sig. Það skiptir máli, því nú sýna margar kannanir að þegar lýðhyggjusinnar öðlast völd, eða hafa áhrif á völdin í landinu, fari frjálsu lýðræði hnignandi.“

Svokallaðir hægri valdboðsflokkar (e. authoritarian parties) hafa hliðrað evrópskri pólitík til hægri og þeir sem stóðu að umræddri rannsókn íhuguðu meðal annars að skilgreina suma velþekkta flokka, sem hafa gjarnan verið skilgreindir sem mið-hægriflokkar, sem róttæka hægri flokka.

Svo var þó ekki gert, en til greina kom að skilgreina m.a. breska íhaldsflokkinn og franska lýðveldisflokkinn sem róttæka hægriflokka, vegna breytinga í stefnu þeirra.

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands og formaður breska íhaldsflokksins, er ekki …
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands og formaður breska íhaldsflokksins, er ekki talinn róttæklingur af PopuList. AFP

Lýðhyggjan grafi undan lýðræði

Lýðhyggjan felst gjarnan í tvískiptingu samfélagsins – í hinn „hreina almúga“ og hina „spilltu yfirstétt“ – og vilja fylgjendur stefnunnar meina að öll stjórnmál eigi að vera tjáning á „vilja fólksins“.

Lýðhyggjumenn segja stefnuna fólgna í lýðræðislegum úrbótum sem eigi að veita einstaklingnum forréttindi gagnvart yfirstéttinni og hinum ríkjandi öflum.

Gagnrýnendur stefnunnar segja stefnuna gjarnan grafa undan lýðræðislegum venjum, dómsvaldinu og fjölmiðlum og jafnvel hindra réttindi minnihlutahópa, stundum með afleiðingum sem ná langt út yfir kjörtímabil þeirra.

„Í augum lýðhyggju er allt slæmt sem stendur í vegi „vilja fólksins“ og stefnumótun,“ segir Rooduijn. „Þar á meðal eru allt nauðsynlegt fyrirkomulag til að tryggja jafnvægi milli valdaaðila – þ.e. frjálsir fjölmiðlar, sjálfstæðir dómstólar og vernd minnihlutahópa – sem eru hornsteinar í frjálsu lýðræði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert