„Þetta er mjög vandræðalegt fyrir Noreg!“

Noregur var ekki á mælendaskrá á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í …
Noregur var ekki á mælendaskrá á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. AFP

Frode Pleym, yfirmaður umhverfissamtakanna Greenpeace í Noregi, segir það mjög vandræðalegt að Noregur hafi ekki fengið ræðutíma á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór á aðalfundi samtakanna í vikunni. 

NRK greinir frá. 

Ísland á listanum, en ekki Noregur

Á fundinum töluðu fulltrúar 34 aðildarríkja, þar á meðal fulltrúi Íslands, en fulltrúa Noregs var hvergi að finna á mælendaskrá.

Ástæðu þess má rekja til kröfu sem Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, setti fram í aðdraganda fundarins um að aðeins lönd „sem hafa eitthvað áþreifanlegt fram að færa“ á sviði loftslagsmála mættu taka til máls á loftslagsráðstefnunni. 

Ríkasta land heims að slá slöku við

Þá gerði Guterres þá kröfu að á mælendaskrá yrðu einungis fulltrúar landa sem sett gætu fram áþreifanlegar og trúverðugar áætlanir um að dragar úr losun, meðal annars með því að draga úr notkun olíu, kola og gass.

Noregur þótti ekki uppfylla þær kröfur og sat því hjá á meðan að umræðum stóð. 

„Það er tekið eftir því á alþjóðavettvangi að ríkasta land heims bregst ekki við af krafti til að vinna á bug hlýnun jarðar og veikir stöðu Noregs í alþjóðlegu loftslagsstarfi,“ er haft eftir Ola Elevsen, talsmanni orku-og umhverfisstefnu Venstre-stjórnmálaflokksins í Noregi.

„Ríkisstjórnin verður að byrja á því að hefja öflugar loftslagsaðgerðir og hætta þessu tóma tali – þá fær Noregur líka ræðutíma hjá SÞ."

Vonast til vitundarvakningar

Þá segir Frode Pleym, yfirmaður umhverfissamtakanna Greenpeace í Noregi, það pínlegt að Noregur hafi ekki fengið að taka til máls. 

„Þetta er mjög vandræðalegt fyrir Noreg! Vonandi er þetta alvöru vitundarvakning fyrir stjórnmálamennina okkar,“ segir Pleym. Hann segir dapra frammistöðu Norðmanna á sviði umhverfismála geta komið til með að grafa undan trúverðugleika þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert