Boð til nasista hið vandræðalegasta

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir boðið hið vandræðalegasta.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir boðið hið vandræðalegasta. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir verulega vandræðalegt fyrir Kanada að úkraínskum manni, sem barðist með nasistum Þýskalands í seinna stríði, hafi verið boðið til viðburðar í kanadíska þinginu í síðustu viku.

Maðurinn, hinn 98 ára gamli Yaroslav Hunka, var kallaður hetja og stóðu þingmenn á fætur og klöppuðu fyrir honum er hann var viðstaddur heimsókn Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, í kanadíska þingið.

Forseti neðri deildar þingsins, Anthony Rota, sagðist ekki hafa vitað að Hunka hafi barist með nasistum í stríðinu og að honum hefði verið boðið fyrir mistök. 

Kallað er eftir því að Rota segi af sér vegna málsins. 

„Úkraínsk hetja, kanadísk hetja“

Trudeau sagði við blaðamenn í gær, mánudag, að það væri verulega miður að Hunka hefði verið boðið.

„Það er rosalega vandræðalegt fyrir kanadíska þingið að þetta hafi gerst, og fyrir Kanada yfir höfuð,“ sagði forsætisráðherrann að því er breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá.

Selenskí kom til Kanada á föstudag og ávarpaði þingið. Hunka var viðstaddur og benti Rota á hann og sagði hann vera „úkraínska hetju, kanadíska hetju“ og þakkaði honum fyrir þjónustu hans. 

Úkraínumenn börðust flestir með Sovétmönnum í síðari heimstyrjöldinni en nokkur þúsund manna börðust með nasistum Þýskalands. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka