Mál ungmenna gegn 32 þjóðum hafið

Andre Oliveira, lengst til vinstri, í dómsalnum í morgun ásamt …
Andre Oliveira, lengst til vinstri, í dómsalnum í morgun ásamt fleiri portúgölskum ungmennum. AFP/Frederick Florin

Dómsmál sex portúgalskra ungmenna gegn 32 þjóðum hófst í morgun hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.

Ungmennin saka þjóðirnar um að gera ekki nægilega mikið til að koma í veg fyrir hlýnun jarðar. Þau eru á aldrinum 11 til 24 ára og segjast þjást af kvíða vegna heilsu sinnar og „að þurfa að búa við loftslag sem verður heitara og heitara” með sífellt fleiri náttúruhamförum.

Portúgölsku ungmennin í húsnæði Mannréttindadómstóls Evrópu í morgun.
Portúgölsku ungmennin í húsnæði Mannréttindadómstóls Evrópu í morgun. AFP/Frederick Florin

Málið var höfðað eftir mikla skógarelda sem geisuðu í Portúgal árið 2017 sem urðu yfir 100 manns að bana og ollu mikilli eyðileggingu.

„Evrópskum stjórnvöldum hefur ekki tekist ekki að vernda okkur,” sagði Andre Oliveira, 15 ára, sem er einn þeirra sem höfðuðu málið.

„Við erum í framlínu loftslagsbreytinga í Evrópu: jafnvel í febrúar er stundum 30 stiga hiti. Hitabylgjurnar eru að verða alvarlegri og alvarlegri,” bætti hann við.

Við upphaf réttarhaldanna í morgun.
Við upphaf réttarhaldanna í morgun. AFP/Frederick Florin

Oliveira og hin fimm ungmennin segja að aðildarríkjum Evrópusambandsins, sem eru 27 talsins, ásamt Rússlandi, Tyrklandi, Sviss, Noregi og Bretlandi, hafi öllum mistekist að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda sem hafi áhrif á líf þeirra og heilsu.

„Það hafa verið höfðuð mál af ungu fólki vegna loftslagsbreytinga hjá öðrum dómstólum en þetta er fyrsta málið sem Mannréttindadómstóll Evrópu tekur fyrir sem tengist réttindum ungs fólk,” sagði Gerry Liston, lögmaður hjá samtökunum GLAN, sem annast mál ungmennanna.

„Ef þau vinna málið verða þjóðir heimsins „að flýta mjög aðgerðum sínum í loftslagsmálum,” bætti Liston við.

AFP/Frederick Florin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert