Hyggst banna reykingar alfarið í Bretlandi

Rishi Sunak stefnir á að banna reykingar alfarið í Bretlandi.
Rishi Sunak stefnir á að banna reykingar alfarið í Bretlandi. Oli Scarff/AFP

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hét því í dag á landsfundi Íhaldsflokksins að setja lög til að draga úr tóbaksnotkun og á endanum banna reykingar alfarið. Einnig stendur til að draga úr notkun rafretta meðal ungmenna.

„Ég legg til að í framtíðinni hækkum við reykingaaldurinn um eitt ár á hverju ári. Það þýðir að 14 ára unglingur í dag mun aldrei geta keypt sígarettur löglega og að þeirra kynslóð getur alist upp reyklaus," sagði Sunak í stefnuræðu sinni.

Tillaga hans myndi gera það að lögbroti að hver sá sem fæddur eftir 1. janúar 2009 fái að kaupa tóbaksvörur. Reykingaaldurinn myndi svo hækka um eitt ár á hverju ári þar til hann nær til allrar þjóðarinnar, segir í yfirlýsingu frá skrifstofu Sunaks í Downingstræti.

„Þetta hefur möguleika á að draga úr reykingum ungs fólks nánast alveg árið 2040,“ segir í tilkynningunni sem kallar aðgerðirnar „sögulegar“.

Vill banna ákveðnar bragðtegundir

Einnig stendur til að takmarka rafrettunotkun ungmenna. Í því gæti falist að banna ákveðnar bragðtegundir og yrði umbúðum vökvanna sem þarf í rafretturnar breytt.

Sunak hvatti þingmenn til þess að styðja tillöguna þegar hún kæmi út en að öllum væri frjálst að kjósa samkvæmt eigin samvisku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert