Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sagði í stefnuræðu sinni á landsfundi Íhaldsflokksins að það ætti ekki að vera umdeilt að foreldrar ættu að fá að vita hvað börn þeirra væru að læra um sambönd kynjanna í skólum.
„Það ætti ekki að vera umdeilt fyrir foreldra að fá að vita hvað börnum þeirra er kennt í skólum um sambönd. Sjúklingar ættu að vita hvenær spítalar eru að tala um karlmenn eða konur og við ættum ekki að vera þvinguð til að trúa því að fólk geti verið af hvaða kyni sem það vill vera, þau geta það ekki. Karlmaður er karlmaður og kona er kona. Þetta er bara heilbrigð skynsemi,“ sagði Sunak á þinginu og uppskar mikið klapp við þessa yfirlýsingu meðal flokksfélaga sinna.
Á landsfundi Íhaldsflokksins reyndi Sunak að blása byr undir vængi Íhaldsflokksins sem hefur verið að mælast nokkuð undir Verkamannaflokknum í skoðanakönnunum.
Í frétt Breska ríkisútvarpsins (BBC) kemur fram að Sunak tilkynnti að hætt yrði við HS2-hraðlestarlínuna sem átti að verða eitt stærsta innviðaverkefni Bretlands.
Segir BBC að ræða hans hafi einkennst af boðskap um breytingar en hann nefndi orðið „breytingar“ 30 sinnum í ræðu sinni.
Eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag tilkynnti hann einnig að stefnt yrði að því að banna reykingar í Bretlandi alfarið.