„Þetta á eftir að stigmagnast“

Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum …
Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum Mið-Austurlanda.

„Þetta á eftir að stigmagnast því að mannsfallið var svo gífurlegt í gær,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams-háskólann í Bandaríkjunum.

„Hamas samtökin hafa gert ráð fyrir þessum viðbrögðum Ísraela og það má sjá af því að þeir hafa tekið alla þessa gísla, allavega 100 manns,“ segir Magnús.

Hann segir að tilvera þessara gísla gæti leitt til þess að þetta stríð dragist á langinn. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gíslar eru teknir. Stutt er síðan Íranar leystu frá sér gísla fyrir fjármagn og þetta er taktík sem hefur verið notuð af þessum samtökum síðustu 40-50 árin,“ segir Magnús.

„Þetta er svo mikið sjokk fyrir (ísraelsku) þjóðina og ég held að það verði svo mikið ákall um að gera eitthvað og ég get ímyndað mér að aðgerðirnar muni aukast næstu daga,“ segir Magnús.

Hann segir að aðgerð Hamas-samtakanna hafi verið það vel skipulögð að augljóst sé að samtökin hafi fengið vopn annars staðar frá án þess að hann geti staðhæft til um það.

Íranar sagðir hafa samþykkt árás 

Í þessu samhengi má nefna það að í frétt Wall Street Journal frá því fyrr í kvöld segir að stjórnvöld í Íran hafi samþykkt árásina á fundi í Beirút í Líbanon á mánudag fyrir tæpri viku. Þessar upplýsingar eru sagðar koma frá háttsettum mönnum í Hamas- og Hesbolla-samtökunum í Líbanon.

Magnús segir að atburðarrásin veiki stöðu Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísrael þar sem viðkvæðið hefur gjarnan verið það að honum sé best treystandi til að fara með öryggismál þjóðarinnar.

„Þessi gíslataka í ofanálag er mikið áfall fyrir þjóðina. Þú vinnur ekkert stríð með því að taka gísla en þetta er taktískt og þetta er sálfræðistríð fyrir utan hið raunverulega stríð,“ segir Magnús.

Ísraelar hafa sprent skotmörk á Gasasvæðinu í dag.
Ísraelar hafa sprent skotmörk á Gasasvæðinu í dag. AFP

Vilja sameina Palestínumenn

Hann segir að engar áætlanir hjá Hamas um að ná landsvæði enda var það tiltölulega fámennt lið sem fór inn í Ísrael.

„Tilgangurinn er held ég fyrst og fremst að vekja athygli á sinni stöðu en jafnframt hefur herstjórinn hjá Hamas sagt að nú ættu Palestínumenn að sameinast í nýrri byltingu,“ segir Magnús.

Í þessu samhengi ber að nefna að PLA-samtökin á Vesturbakkanum og Hamas-samtökin hafa eldað grátt silfur um árabil.

„Ísraelar hafa verið að einbeita sér að ógnum frá Íran, málefnum Sýrlands, semja við Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádí-Arabíu og það virtist vera sem þeir teldu sig vera með stjórn á ástandinu í Palestínu,“ segir Magnús

Hann segir að með þessu séu Hamas-samtökin að segja að Ísraelar geti ekki einbeitt sér að því að reyna að leysa málin með hefðbundnum óvinum eins og Sádí-Arabíu án þess að leysa málin í Palestínu. „Hamas-samtökin eru að segja að þetta kerfi sem þið hafið komið upp er algjörlega óásættanlegt,“ segir Magnús.

Palestínskir vígamenn halda í átt að landamæragirðingunni við Ísrael frá …
Palestínskir vígamenn halda í átt að landamæragirðingunni við Ísrael frá Gasasvæðinu. AFP/Said Khatib

Viðbrögðin enn meiri en áður 

Ísraelsmenn yfirgáfu Gasasvæðið á árunum 2005-2006 og frá þeim tíma hafa þeir ekki skipt sér af daglegum málefnum á Gasa.

„Með mjög reglulegu millibili hafa Ísraelsmenn þó verið með öflugar aðgerðir á Gasa. En nú held ég að þetta verði enn meira. Maður hefur ekki séð svona dánartölur áður fyrir svona lítið land eins og Ísrael. Tilgangur stofnunar þjóðarinnar er að halda gyðingum öruggum og þetta er þvílíkt sjokk. Því held ég að viðbrögðin verði enn meiri en áður,“ segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert