Yfirlýsing um hernaðaraðstoð væntanleg

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Antony Blinken utanríkisráðherra.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Antony Blinken utanríkisráðherra. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið Ísrael öruggum stuðningi sínum. Búist er við að bandarísk stjórnvöld gefi út yfirlýsingu um hernaðarstuðning við Ísrael í bráð, mögulega á morgun.

Biden lýsti árás Hamas-samtakanna sem hræðilegum hörmungum og sagði hann Ísraela hafa fullan rétt til þess að verja sig. 

„Ég sagði við [Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísrael] að Bandaríkin muni standa með fólkinu í Ísrael er þau standa frammi fyrir þessum hræðilegu hryðjuverkum,“ sagði Biden í ávarpi.

„Í minni forsetatíð verður stuðningur við öryggi Ísraela óhagganlegur,“ sagði forsetinn og bætti við: „Við munu sjá til þess að þeir fái þá hjálp sem borgarar þeirra þurfa og að þeir geti haldið áfram að verja þjóðina.“

Ísraelar fá það sem þeir þurfa

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, áréttaði einnig stuðning Washington við Ísrael og sagði: „Næstu daga mun varnarmálaráðuneytið tryggja að Ísrael muni fá það sem það þarfnast.“

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddi við Mahmud Abbas, forseta Palestínu, og kallaði eftir því að heimastjórnin myndi fordæma árásina á Ísrael.

Þá ræddi Blinken einnig við stjórnvöld í Egyptalandi í von um að þau gætu stöðvað átökin milli Hamas-samtakanna og Ísraela með milligöngu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka