Meira en 120 þúsund manns eru á vergangi á Gasasvæðinu frá því átökin brutust út á milli herskárra Palestínumanna og Ísraelsmanna segir í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum.
Yfir 123 þúsund manns hafa verið á vergangi innan Gasasvæðisins. Heimili margra hafa verið eyðilögð en Ísraelsmenn hafa gert hundruð árása á Gasa síðan á laugardagsmorgun þegar vígamenn á vegum Hamas gerðu mannskæðar árásir í Ísrael og skutu þúsundum eldlauga á landið.
Um 73 þúsund manns hafa fundið sér skjól í skólabyggingum en í þeim hafa verið sett upp neyðarskýli.
„Það er rafmagn í skólunum og við útvegum fólki mat, hreint vatn og veitum þeim sálrænan stuðning og læknismeðferð,“ segir Adnan Abu Hasna, talsmaður stofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir palestínska flóttamenn, við AFP-fréttastofuna.
Alls búa 2,3 milljónir manna á Gasasvæðinu.