Frambjóðandi Trumps tapaði meðal Repúblikana

Á myndinni má sjá Jim Jordan til vinstri og Steve …
Á myndinni má sjá Jim Jordan til vinstri og Steve Scalise til hægri. AFP/Samsett mynd

Þingflokkur Repúblikana hefur tilnefnt Steve Scalise sem frambjóðanda sinn til forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Sigraði hann því Jim Jordan sem Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafði lýst stuðningi við.

Kemur þetta í kjölfar þess að Kevin McCarthy var bolað út sem forseta fulltrúadeildarinnar af átta Repúblikönum sem kusu með nær öllum þingflokki Demókrata.

Scalise hafði betur á móti Jim Jordan með 113 atkvæðum á móti 99.

Kosning í næstu viku

„Við höfum mikið verk að vinna, ekki bara í fulltrúadeildinni fyrir fólkið í landinu, heldur sjáum við hversu hættulegur heimurinn er og hvernig hlutirnir geta breyst hratt,“ sagði Scalise við blaðamenn eftir atkvæðagreiðsluna.

Nú tekur við atkvæðagreiðsla í fulltrúadeildinni þar sem verður kosið um næsta forseta fulltrúadeildarinnar. Atkvæðagreiðslan verður í fyrsta lagi næsta miðvikudag og hefur Scalise því um viku til að tryggja sér stuðning allra þingmanna Repúblikana, en flokkurinn er með mjög tæpan meirihluta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert