TikTok áminnt fyrir upplýsingaóreiðu

TikTok var áminnt fyrir dreifingu á röngum upplýsingum og ofbeldisfullu …
TikTok var áminnt fyrir dreifingu á röngum upplýsingum og ofbeldisfullu myndefni. AFP/Nhac Nguyen

Samfélagsmiðillinn TikTok hefur fengið áminningu frá Evrópusambandinu fyrir dreifingu efnis sem talið er bæði ólöglegt og misvísandi. Þær upplýsingar sem töldust rangar hverfðust einkum um árás Hamas-liða á Ísraelsríki. Þess var krafist að TikTok brygðist nánast tafarlaust við með útlistunum á því hvernig miðillinn hygðist sporna við upplýsingaóreiðu. 

Aðrir samfélagsmiðlar, svo sem X (áður Twitter) og Meta, hlutu einnig svipuð fyrirmæli um að bregðast við rangfærslu upplýsinga fyrr í vikunni.

Notendur oftar en ekki börn og unglingar

Í bréfi til framkvæmdarstjóra miðilsins kom fram að TikTok bæri sérstök skylda til að vernda notendur sína frá ofbeldisfullu efni svo sem gíslatökum. Þetta væri í ljósi þess að miðilinn væri einstaklega vinsæll meðal barna og unglinga, sem bæri að hlífa við áhorfi á slík myndskeið. Ekki væru nægilegar ráðstafanir gerðar til að stemma stigu við dreifingu ógeðfellds efnis á miðlinum. 

Samfélagsmiðlar þurfa að bregðast við brjóti efni í bága við lög ESB eða aðildarríkja þess. Geri þeir það ekki geti það leitt til hárra sekta eða jafnvel þess að þeir verði bannaðir í Evrópu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert