Ísrael sendir úrvalssveitir inn á Gasasvæðið

Brynvarðar bifreiðar Ísraela við landamærin að Gasasvæðinu.
Brynvarðar bifreiðar Ísraela við landamærin að Gasasvæðinu. AFP

Ísraelsher hefur sent fyrstu úrvalssveitir sínar inn á Gasasvæðið. Breska dagblaðið Telegraph greinir frá þessu.

Yoav Gallant utanríkisráðherra Ísraels varar við langvinnri og öflugri sókn, sem gerð verði til að eyða Hamas-samtökunum. Hann segir varnarsveitirnar munu taka Hamas af Gasasvæðinu með innrás sem hafa muni varanlegar afleiðingar á palestínska yfirráðasvæðið.

Árásir eru hafnar til að finna gísla á Gasasvæðinu og hreinsa svæðið af hryðjuverkamönnum og vopnum, segir ísraelska varnarliðið.

Hermenn Ísraels fara meðfram landamærunum að Gasasvæðinu í suðurhluta landsins …
Hermenn Ísraels fara meðfram landamærunum að Gasasvæðinu í suðurhluta landsins í dag. AFP

Veittu 1,1 milljón manna sólarhring

Ísrael hafði gefið út fyrirmæli um að 1,1 milljón manna hefði sólarhring til að yfirgefa Gasasvæðið áður en herinn hefði sókn sína, sem er nú sögð vofa yfir.

Sólarhringsviðvörunin átti að renna út snemma á laugardagsmorgun.

Í umfjöllun Telegraph kemur fram að ísraelska varnarliðið hafi sagst vera í umfangsmikilli árás á Gasasvæðinu eftir að hafa skotið á fleiri en 750 skotmörk úr lofti til þess að búa jarðveginn undir innrásina.

Hafa Hamas-samtökin brugðist við með því að segja óbreyttum borgurum að halda sig á heimilum sínum á Gasasvæðinu. Íbúar Gasasvæðisins hafa einnig sagt að Hamas reyni að hindra þá í að yfirgefa svæðið.

Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands sagði vígamenn Hamas-samtakanna nota almenna borgara sem mannlega skildi í átökum sínum við Ísraelsmenn. 

Safnað sönnunargögnum

Ísraelski herinn segir hermennina hafa safnað saman sönnunargögnum sem myndu hjálpa þeim að finna gísla í árásum hermanna á Gasasvæðinu.

Lloyd Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna lýsti yfir gallhörðum stuðningi ríkis síns við Ísrael í heimsókn sinni til landsins í dag. Sagði hann að á þessum tímum væri enginn tími fyrir hlutleysi.

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddi við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, í Jórdaníu í dag og hvatti Ísraela til að takmarka dauða óbreyttra borgara. Hann ítrekaði þó að aðgerðir Ísraela væru ekki hefndaraðgerðir heldur væri landið að verja líf borgara sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert