Neyðaraðstoð bíður við landamærin

Læknar og sjúkraliðar bíða við landamærin.
Læknar og sjúkraliðar bíða við landamærin. AFP/ Ali Moustafa

Bílalestir af hjálpargögnum bíða við lokuð landamæri milli Egyptalands og Gasasvæðisins og því koma hjálparsamtök ekki nauðsynjum yfir á hörmungarsvæðin.

Samningaviðræður hafa staðið yfir milli Egyptalands, Ísraels, Hamas og Bandaríkjanna um að koma neyðaraðstoð yfir á svæðið í gegnum borgina Rafah. Er það eina leiðin inn og út af Gasasvæðinu sem ekki er stjórnað af Ísrael. Sú leið hefur verið lokuð síðan á þriðjudag.

Bandarískur embættismaður staðfesti við AFP-fréttastofuna í gær að Egyptaland og Ísrael hefðu náð samkomulagi um að leyfa bandarískum ríkisborgurum að fara frá Gasa í gegnum Rafah.

100 flutningabílar með hjálpargögn

„Afstaða Egypta er skýr, sem krefst þess að aðstoð berist til Gasa,“ greindu fjölmiðlar í Egyptalandi frá.

Hjálpargögn hafa borist frá Jórdaníu, Tyrklandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni til El Arish-flugvallarins, um 50 kílómetra vestur af Rafah.

Þá hefur Egyptaland sent bílalest með 100 flutningabílum sem flytja hjálpargögn.

Bílalest af hjálpargögnum bíður við lokuð landamæri milli Egyptalands og …
Bílalest af hjálpargögnum bíður við lokuð landamæri milli Egyptalands og Gasa. AFP/ Ali Moustafa

Minnst 126 í gíslingu á Gasasvæðinu

Ísrael, sem stjórnar hinum tveimur leiðunum inn á Gasasvæðið, hefur lýst yfir „algjöru umsátri“ um svæðið.

Íbúar svæðisins hafa ekki aðgang að mat, vatni, rafmagni eða eldsneyti.

Orkumálaráðherra Ísraels sagði á föstudag að enginn rafmagnsrofi verði kveiktur, enginn vatnskrani opnaður og enginn eldsneytisbíll fari inn á svæðið fyrr en Ísraelsmenn verði látnir lausir. Ísraelsher segir Hamas halda minnst 126 Ísraelsmönnum í gíslingu á Gasasvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert