Innrás vofir yfir Gasa

Brynvarðir ísraelskir liðsflutningar við landamæri Gasasvæðisins í gær en Ísraelsmenn …
Brynvarðir ísraelskir liðsflutningar við landamæri Gasasvæðisins í gær en Ísraelsmenn boða landhernað innan tíðar til að uppræta Hamas. AFP/Menahem Kahana

Ísraelsher lét sprengjum rigna á vígi Hamas á suðurhluta Gasasvæðisins í gær í aðdraganda boðaðrar innrásar á svæðið með það að markmiði að uppræta hina fasísku íslamistahreyfingu með öllu, eftir hina fordæmalausu hryðjuverkaárás hennar á almenna borgara í Ísrael um fyrri helgi.

Ekki er ljóst hvenær af innrásinni verður en miklar rigningar hafa mögulega tafið hana. Það kann þó að gefa vísbendingu að íbúar í ísraelskum bæjum nálægt Gasa hafa verið beðnir um að yfirgefa þá ekki síðar en í dag.

Að minnsta kosti 1.400 manns lágu í valnum eftir hryðjuverkaárásina 7. október og fleiri sárir en ekki hafa fleiri gyðingar fallið frá því í Helförinni á dögum síðari heimsstyrjaldar.

Spenna jókst jafnframt við norðurlandamæri Ísraels og hörðnuðu skærur milli Ísraelsmanna og ýmissa vígamanna íslamista. Þar á meðal voru gerðar loftárásir á hersveitir Hesbollah í Líbanon eftir a.m.k sex eldflaugaárásir þaðan, en fimm manns í bænum Shutla í Ísraels særðust í þeim.

Hesbollah eru leppar Írana sem undanfarna daga hafa sent Ísrael tóninn um að látið verði til skarar skríða gegn þeim hefjist landhernaður á Gasa. Bandaríkin hafa sent tvær flugmóðurskipadeildir á svæðið til þess að aftra fleirum frá því að hefja hernað, en í gær greindi Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, frá því að Írönum hefði verið gert orð um áhyggjur Bandaríkjanna.

„En við getum auðvitað ekki útilokað að Íran kjósi að blanda sér í málin með beinum hætti,“ sagði hann í viðtali við CBS. „Við þurfum að búa okkur undir alla möguleika,“ bætti hann við án þess að skýra mál sitt nánar.

Ísraelsher sagði í gær að Billal al Kedra, sá foringi Hamas sem talinn er hafa borið ábyrgð á fjöldamorðinu í samyrkjubúinu í Nirim, hafi fallið í loftárás á laugardag. Um leið var því heitið að allir aðrir leiðtogar Hamas yrðu felldir, þar á meðal Yahia Sinwar, leiðtogi hreyfingarinnar á Gasa. „Sinwar er lifandi dauður,“ sagði aðaltalsmaður Ísraelshers á blaðamannafundi.

Ísraelsher hefur hvatt íbúa Gasa til þess að hafa sig á brott frá svæðum sem gera eigi loftárásir á og gefið grið til þess. Þúsundir Gasabúa eru á vergangi af þeim völdum á litlu en afar fjölmennu landsvæði. Hamas fyrirskipar fólki hins vegar að vera um kyrrt, einmitt til þess að aftra Ísraelsher frá árásum á stöðvar sínar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert