Spotify í syngjandi sveiflu

Spotify gerði það gott á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Streymisveitan …
Spotify gerði það gott á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Streymisveitan skilaði hagnaði og áskrifendum hefur farið fjölgandi. AFP

Streymisveitan Spotify gerði það gott á þriðja ársfjórðungi þessa árs en forsvarsmenn fyrirtækisins segja að virkum áskrifendum hafi fjölgað um 26% á þessu tímabili og þá skilaði félagið hagnaði. 

„Alveg magnaður ársfjórðungur. Við bætum okkur skref fyrir skref,“ sagði Daniel Ek, forstjóri Spotify, í færslu sem hann birti á X. 

Alls eru nú áskrifendur streymisveitunnar 574 milljónir talsins. Þeim fjölgaði um 23 milljónir á milli ársfjórðunga og er þetta næstmesta fjölgun á þriðja ársfjórðungi í sögu félagsins. 

Talsmenn Spotify reikna með því að fjöldi áskrifenda rjúfi 600 milljóna múrinn fyrir lok ársins. 

Þá hefur áskrifendum sem greiða mánaðarlega áskrift fjölgað um 16%, sem er megin tekjulind félagsins. Þeir eru nú 226 milljónir talsins. 

Tekjur Spotify jukust um 11% á milli fjórðunga í 3,4 milljarða evra en rekstrarhagnaður nam 32 milljónum evra samanborið við 228 milljóna evra tap fyrir sama tímabil í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert