Kjærsti Moen frá Hamar í Noregi varð ekki um sel þegar sænskir blaðamenn settu sig í samband við hana fyrir fáeinum vikum vegna máls sem þeir höfðu til rannsóknar. Færðu þeir Moen þau tíðindi er henni munu seint líða úr minni: Maðurinn sem hún hafði kallað pabba alla sína ævi reyndist alls ekki vera það – Moen var getin með sænsku sæði sem í ofanálag var stolið.
„Ég fékk áfall,“ segir Moen við norska ríkisútvarpið NRK, „ég hringdi í mömmu sem neitaði í fyrstu en ég heyrði á röddinni að hún laug.“
Í fyrstu þóttist hún þess fullviss að upplýsingar sænsku blaðamannanna væru byggðar á sandi, þær hlytu að vera rangar. Svo var þó ekki. Moen á líffræðilegan föður í Svíþjóð. „Allt ættartréð var rifið í burtu,“ segir hún vonsvikin við NRK.
Það er rannsóknarblaðamennskuþátturinn Uppdrag Granskning hjá sænska ríkisútvarpinu SVT sem rannsakað hefur sæðisgjafir sænskra hermanna í Uppsala á árunum kringum 1970. Hafa sautján þeirra sagt frá sæðisgjöf sinni til háskólasjúkrahússins í bænum. Af þeim hafa að minnsta kosti þrír að sér fornspurðum orðið feður eins eða fleiri barna samkvæmt DNA-prófum sem Uppdrag Granskning hefur fengið að sjá.
Einn þessara manna er faðir Kjærsti Moen en hvorki honum né hinum sæðisgjöfunum var greint frá þeim möguleika að sæði þeirra yrði notað til tæknifrjóvgunar enda brugðust þeir ókvæða við er blaðamenn Uppdrag Granskning sögðu þeim sannleikann.
„Þetta er hneyksli,“ segir einn þeirra og er í framhaldinu spurður hvort hann hefði veitt samþykki sitt hefði honum verið tjáð að sæði hans yrði notað til að frjóvga konu. „Nei, aldrei í lífinu fjandinn hafi það!“ svarar maðurinn sem kemur ekki fram undir nafni í samtali sínu við sænska ríkisútvarpið. „Þetta var bara rannsókn, aldrei stóð til að nota það,“ bætir hann við.
Sjúkrahúsið í Uppsala hefur nú beðist afsökunar á sæðisnotkuninni sem aldrei hafði fengist samþykki til – enda þess samþykkis aldrei leitað.
Kjærsti Moen, dóttir eins sænsku hermannanna eins og nú er vitað, kveðst lengi hafa haft áhuga á ættfræði, hvort tveggja vegna löngunar hennar til að fræðast um hugsanlega arfgenga sjúkdóma og vegna þess að hún hefur alltaf upplifað sig einhvern veginn öðruvísi.
„Ég hef skoðað ættina en nú þjónar það engum tilgangi lengur, við rannsókn kom í ljós að líkurnar á því að hann [Svíinn] sé faðir minn eru hundrað prósent,“ segir hún við NRK og bætir því við að foreldrar hennar hafi verið beðnir um að halda tæknifrjóvguninni leyndri eftir að hún var framkvæmd snemma á áttunda áratugnum.
Var foreldrum Moen tjáð að sæðisgjafarnir væru læknanemar. „Þau voru beðin að segja börnunum aldrei frá þessu, það væri þeim skaðlegt,“ segir hún. Enginn á Uppsala-sjúkrahúsinu minntist hins vegar á það við foreldra hennar að sæðið væri stolið.
Hún hefur enn ekki hitt líffræðilegan föður sinn. „Hann á enga sök á þessu, hann fékk líka áfall þegar haft var samband við hann. Ég vona að ég fái að hitta hann, svo ég fái að vita meira,“ segir hún og kveðst þrátt fyrir allt ánægð með að þær mæðgur hafi fengið að vita sannleikann – á meðan móðir hennar lifir enn.
„Þetta er gróft, svona lagað á ekki að eiga sér stað,“ segir Marianne Aasen, formaður norska líftækniráðsins, í samtali við NRK. Segir hún frá því að sæðisgjafir hafi einnig átt sér stað í Noregi á áttunda áratugnum. Á þeim tíma hafi nafnleynd hvílt yfir sæðisgjöfum, tilgangurinn hafi verið að aðstoða fólk sem gat ekki getið börn. „Það var verið að taka tillit til þeirra, ekki barnanna,“ segir hún.
Erfitt sé að komast að því hverjir gáfu sæði til tæknifrjóvgana fyrir 2005, þá voru engar skrár haldnar um sæðisgjafa. Frá og með 2005 sé hins vegar hægt að fletta öllu upp. Sú uppgötvun Kjærsti Moen að faðir hennar hafi í raun verið sænskur hermaður, og sjúkrahús þar í landi auk þess stolið sæði hans, er því eingöngu til komin vegna rannsóknar Uppdrag Granskning á sæðisgjöfum í Uppsala fyrir á sjötta tug ára.