Samfélagsmiðlum er miskunnarlaust beitt til að fegra ímynd stríðandi fylkinga Ísraela og Palestínumanna í stríðinu sem kostað hefur þúsundir manns lífið síðan liðsmenn Hamas-hryðjuverkasamtakanna réðust inn í Ísrael 7. október.
Um þetta fjallar breska ríkisútvarpið BBC og segir af tveimur fjögurra ára gömlum drengjum, þeim Omer Siman-Tov og Omar Bilal al-Banna, sem eru meðal þeirra þúsunda sem ekki verður fleiri lífdaga auðið. Omer var ísraelskur og týndi lífinu í innrás Hamas. Jafnaldri hans, Omar, var hins vegar palestínskur íbúi Zeitoun sem liggur austan Gasaborgar.
Létust drengirnir með fjögurra daga millibili og hafa andlit þeirra síðan verið algeng sjón notenda samfélagsmiðilsins X þar sem því er haldið fram að drengirnir séu á lífi.
Omar var úti að leika sér með Majd bróður sínum þegar hús nágranna þeirra varð fyrir flugskeyti í loftárás Ísraela. Omar varð undir rústunum þegar húsið hrundi og lést. Ekki löngu síðar birtist frásögn á X á notendaaðgangi sem er Ísraelum hliðhollur í stríðinu. Fylgdi þar myndskeið af manni sem sést halda á barni á götu sem vafið er í klæði. Var þar ættingi Omars á ferð og bar lík drengsins. Fylgdi svo eftirfarandi fullyrðing:
„Hamas-liðar eru örvæntingarfullir! Fylgdi svo frásögn af því að Hamas, samtök skilgreind sem hryðjuverkasamtök í mörgum ríkjum, hefðu sent frá sér myndskeið af manni sem virtist halda á látnu barni. „En bíðið bara. Þarna var ekki um raunverulegt barn að ræða; þetta er brúða!“
Sagði í framhaldinu að þetta dæmi sýndi hvernig lygar Hamas og áróður virkuðu. Ekki leið á löngu uns horft hafði verið 3,8 milljón sinnum á myndskeiðið og í kjölfarið var tekið undir fullyrðinguna á opinberum X-aðgangi ísraelska ríkisins. Fleiri opinberir ísraelskir aðgangar bergmáluðu sögunni svo áfram, svo sem aðgangar ísraelsku sendiráðanna í Austurríki og Frakklandi.
Blaðamaður BBC hafði upp á þeim sem tók upprunalega myndskeiðið og birti á Instagram, palestínska ljósmyndaranum Moamen El Halabi. Staðfesti hann þegar að þarna hefði lík Omars litla verið borið á brott, ekki leikbrúða. Önnur staðfesting fékkst frá Mohammed Abed, ljósmyndara AFP-fréttastofunnar, sem var viðstaddur atburðinn og myndaði hann. Síðan hefur sannreyningarstofnunin Alt News einnig slegið því föstu að um raunverulegt barnslík hafi verið að ræða.
Harmi lostin móðir Omars litla, Yasmeen, staðfesti svo að auki við BBC að sonur hennar væri í raun og sannleika látinn, „kertaljós lífs míns“ eins og hún kallaði hann.
Ísraelinn Omer lést ásamt tveimur eldri systrum þegar kveikt var í húsi þeirra í innrás Hamas. Ísraelsstjórn birti síðar mynd af þeim systkinum á X-aðgangi sínum þar sem skrifað var að orð skorti og þess óskað að minning þeirra yrði blessun. Naftali Bennet, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, dreifði myndinni einnig.
Í athugasemdum við færsluna á X reyndust svo skilaboð frá notendaaðgöngum hliðhollum Hamas-samtökunum. Var því þar haldið fram að Omer væri leikari sem hefði þegið greiðslu fyrir að koma fram á myndinni því Hamas-samtökin „drepa ekki börn“.
Annars staðar var því slagið fram að þarna væri á ferð „gyðingaáróður upp á sitt besta“, hvorki Omer né systurnar hefðu látið lífið. Einhver skrifaði að engum sönnunargögnum væri til að dreifa um andlát þeirra og Ísraelum væri hollast að láta af lygum sínum. Að sögn blaðamanns BBC mátti svo lesa svipaðar athugasemdir, nokkuð samhljóða, á öðrum samfélagsmiðlum.
Drengirnir tveir, Omar og Omer, eru látnir. Um það er engum blöðum að fletta. Þeir voru báðir fjögurra ára, hittust aldrei, þekktust ekki, en höfðu báðir gaman af að vera úti við að leika sér.