Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hvatti Ísraelsmenn til þess að „stöðva þetta brjálæði þegar í stað“ og hætta árásum á Gasa eftir stigmögnun í árásum Ísraelshers á svæðið.
„Sprengjuárásir Ísraelsmanna stigmögnuðust í nótt og enn og aftur gerðu konur, börn og óbreytta borgara að skotmörkum,“ tísti Erdogan.
Ísraelsher hefur aukið landhernað á Gasasvæðinu eftir að hryðjuverkasamtökin Hamas gerðu árás á Ísrael 7. október. 1.400 óbreyttir Ísraelsmenn létu lífið í árásinni.
Samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Palestínumanna hafa fleiri en 7.300 Palestínumenn látið lífið í árásum Ísraelsmanna á Gasa síðan þá, þar á meðal eru um þrjú þúsund börn.
Erdogan hvatti Tyrki til þess að taka þátt í samstöðufundi með Palestínumönnum sem fer fram í Istanbúl í dag. Gert er ráð fyrir að um milljón manns muni koma saman.