Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að Ísrael muni ekki fallast á tímabundið vopnahlé í stríði sínu gegn hryðjuverkasamtökum Hamas án þess gíslar sem eru í haldi Hamas verði látnir lausir.
„Við höldum áfram með öllu okkar herliði og Ísraelar neita tímabundnu vopnahléi sem felur ekki í sér lausn gíslanna okkar,“ sagði Netanjahú eftir fund með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Tel Aviv í Ísrael í dag.
Áður hafði Blinken ítrekað kröfur um mannúðarhlé í átökunum til að veita fólki hjálp á Gasasvæðinu. Blinken sagði að slíkt hlé gæti hjálpað til að gíslunum yrði sleppt.