Lögreglan í Ósló í Noregi hefur þungar áhyggjur af stórauknu ofbeldi meðal ungmenna þar í borginni en fjöldi ofbeldisglæpa þar sem börn eða ungmenni eru gerendur hefur aukist um 74 prósent það sem af er þessu ári samanborið við síðasta ár.
Um nýliðna helgi var 15 ára gamall drengur skotinn á Godlia, 19 ára maður er í vörslu lögreglu, grunaður um tilraun til manndráps, unglingsdrengur er alvarlega sár eftir hnífstungu á Grorud á föstudag og á sunnudaginn var 16 ára drengur úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna ætlaðrar tilraunar til manndráps. Þessi mál eru þó aðeins dropi í haf ofbeldisbylgju meðal ungs fólks í Ósló.
Hanne Finanger yfirlögregluþjónn, sem ræðir við norska ríkisútvarpið NRK fyrir hönd Óslóarlögreglunnar, segir mesta fjölgun ofbeldisbrota annars vegar meðal tæplega 18 ára unglinga og hins vegar meðal þeirra sem ekki hafa náð 15 ára aldri. Annar brotaflokkur þessara aldurshópa eru auðgunarbrot að sögn yfirlögregluþjónsins.
Lögreglan bendir á ýmsar kveikjur að því að unglingar hneigist til ofbeldis og er þar ofbeldi heima fyrir ofarlega á blaði. Hefur lögregla skoðað aðstæður og sögu 71 ungmennis með tengsl við glæpaklíkur síðustu tvö ár og kveðst þar tæplega einn af hverjum þremur hafa upplifað ofbeldi innan nánustu fjölskyldu.
„Þetta samhengi veldur okkur óróa og við sjáum þarna fylgni á milli ofbeldisbeitingar og þess að verða fyrir ofbeldi heima,“ segir Finanger.
Í sama streng tekur Stian Lid, rannsakandi við Oslomet-háskólann í Ósló, og bendir á að ofbeldi innan fjölskyldu geti leitt til áfallastreitu, einbeitingarskorts, óöryggis og áskorana við að tengjast öðrum. Meðal afleiðinga framangreinds nefnir hann vímuefnanotkun og hegðunarvanda auk náms- og fleiri örðugleika.
„Þegar þessir þættir koma saman geta þeir orðið til þess að ýta börnum og ungmennum út á glæpabrautina,“ segir Lid og bætir því við að ofbeldi innan fjölskyldna sé algengast meðal þeirra fjölskyldna sem berjast í bökkum fjárhagslega.
Ahmet Titrek er félagi í ungmennadeild stjórnmálaflokksins Venstre og á auk þess sæti í ungmennaráði Kulturtanken, stofnun sem fer með menningar- og listamálefni ungs fólks í Noregi. Titrek telur forvarnir besta svarið við auknu ofbeldi í Ósló.
„Ég veit að uppeldi, skólaganga og aðstæður heima fyrir ráða miklu um það hvort ungt fólk hneigist til afbrota. Með því að leggja áherslu á forvarnir getum við leyst stóran hluta vandans þegar komandi kynslóðir eiga í hlut,“ segir Titrek við NRK.