Vísar sögum af hugsanlegu vopnahléi á bug

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að vopnahlé í stríði Ísraels …
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir að vopnahlé í stríði Ísraels gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas sé ekki að fara að gerast nema öllum gíslum sé sleppt. AFP/Abir Sultan/Pool

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, vísar öllum sögum um hugsanlegt vopnahlé á Gasasvæðinu á bug. Ísraelski herinn segir einnig að Hamas-hryðjuverkasamtökin hafi nú „misst stjórn“ á norðanverðu svæðinu.

Margir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í dag að heim­ild­ar­menn með tengsl við hryðjuverkasamtökin Ham­as hefðu sagt viðræður standa yfir er snúa að því að sam­tök­in sleppi tólf gísl­um úr haldi, þar af sex banda­rísk­um rík­is­borg­ur­um, gegn þriggja daga vopna­hléi á Gasa­svæðinu, til að hægt sé að gera Egypt­um kleift að veita mannúðaraðstoð í lengri tíma.

Netanjahú vísar nú þeirri fjölmiðlaumfjöllunum á bug. Segist hann ekki ætla að semja um vopnahlé fyrr en Hamas-liðar hafa frelsað alla gísla sem þeir tóku í árás sinni þann 7. október, en þeir eru taldir vera um 240 talsins.

„Mig langar að sefa alls kyns falska orðróma sem við heyrum frá alls kyns áttum og ítreka eitt skýrt atriði: Það mun ekki vera neitt vopnahlé fyrr en gíslarnir eru lausir.“

Hamas hafi misst stjórn í norðurhlutanum

Ísraelski herinn segir að Hamas-hryðjuverkasamtökin hafi misst stjórn á norðanverðri Gasaströndinni, þar sem um 50 þúsund Palestínumenn hafi þurft að flýja svæðið í dag.

Ísraelsher hefur skipað rýmingu á Gasasvæðinu – ýmist með símtölum, miðum sem fleygt hefur verið úr lofti og tilkynningum á samfélagsmiðlum, sem fáir Gasabúar hafa þó aðgang að sökum þess að ekkert net er á svæðinu. Herinn hefur jafnvel varað við því að norðanverðri Gasaströndinni verði breytt í „vígvöll“.

„Við sáum í dag hvernig 50.000 Gasabúar fóru frá Norður-Gasa til Suður-Gasa,“ segir Daniel Hagari, talsmaður ísraelska hersins. „Þau eru að fara vegna þess að þau skilja að Hamas hafi misst stjórn í norðrinu og að það sé öruggara í suðrinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka