Ísraelar og Hamas-samtökin hafa tilkynnt að samningur hafi náðst um frelsun að minnsta kosti 50 gísla og tuga palestínskra fanga. Á sama tíma verður fjögurra daga vopnahlé gert á Gasasvæðinu.
Eftir margra vikna samningaviðræður, sem stjórnvöld í Katar stjórnuðu, samþykkti ríkisstjórn Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, vopnahlé í morgun eftir fundarhöld í nótt. Forsætisráðherrann sagði ráðherrum að þetta væri „erfið ákvörðun en rétt”.
Hamas-samtökin hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau segjast fagna „vopnahléi í mannúðarskyni”. Þar kemur einnig fram að 150 Palestínumönnum verður sleppt lausum úr ísraelskum fangelsum.
„Samkomulagið felur í sér lausn 50 kvenna og barna úr hópi almennra borgara sem eru í haldi á Gasasvæðinu í skiptum fyrir lausn fjölda palestínskra kvenna og barna sem eru í haldi í ísraelskum fangelsum. Fleirum verður sleppt á síðari stigum samkomulagsins,“ sagði í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Katars.
Þann 7. október fóru byssumenn Hamas yfir landamærin að Ísrael og drápu um 1.200 manns, flesta almenna borgara, að sögn ísraelskra stjórnvalda. Árásin er sú versta í sögu Ísraels.
Hamas og aðrir herskáir hópar í Palestínu tóku um 240 gísla, bæði ísraelska og frá öðrum löndum. Á meðal þeirra voru börn og eldra fólk.
Ísraelar lýstu yfir stríði gegn Hamas. Þeir hétu því að ná gíslunum aftur heim og að stöðva Hamas í eitt skipti fyrir öll.
Umfangsmiklar loftárásir voru gerðar á Gasasvæðið og herlið var einnig sent á vettvang. Að sögn stjórnvalda Hamas á svæðinu hafa 14.100 manns farist, þar af þúsundir barna.