Hvaða fólk fær frelsi sitt aftur?

Ísrael og hryðjuverkasamtökin Hamas tilkynntu fyrr í dag samkomulag sem …
Ísrael og hryðjuverkasamtökin Hamas tilkynntu fyrr í dag samkomulag sem heimilar lausn að minnsta kosti 50 gísla frá Hamas á Gasa og þess í stað myndi Hamas fá um 150 palestínska fanga sem eru í ísraelskum fangelsum. AFP/Ahmad Gharabli

Ísrael og hryðjuverkasamtökin Hamas tilkynntu í gær samkomulag sem heimilar lausn að minnsta kosti 50 gísla frá Hamas á Gasa og að þess í stað myndi Hamas fá um 150 palestínska fanga sem eru í ísraelskum fangelsum. Þar að auki verður vopnahlé í fjóra daga. En hvaða fólk er þetta sem fær frelsið sitt aftur?

Af þeim um það bil 240 gíslum sem Hamas rændi í hryðjuverkaárás sinni á Ísrael 7. október er gert ráð fyrir því að 50 gíslar fái lausn. Konur og börn eru þar í forgangi.

Í frétt CNN kemur fram að á meðal ísraelsku gíslanna, sem eru rétt rúmlega 200 talsins, séu um 39 manns undir 18 ára aldri. Yngsti gíslinn er Kfir Bibas og er 10 mánaða gamall strákur. Hann var 9 mánaða er honum var rænt. Elstu gíslarnir eru 85 ára gamlir en alls voru yfir 29 manns eldri en 65 ára sem var rænt. Um 44 konum var að auki rænt.

Kfir Bibas er 10 mánaða gamall og er yngsti gíslinn …
Kfir Bibas er 10 mánaða gamall og er yngsti gíslinn í haldi Hamas. Honum var rænt 7. október. Ljósmynd/Twitter

Palestínsku fangarnir langflestir piltar

Gíslarnir sem eiga litla von í þessum „fangaskiptum“ eru karlmennirnir sem Hamas rændi, en þeir eru yfir 89 talsins. Bandaríkjastjórn segir að á meðal þeirra 50 sem fá lausn séu þrír Bandaríkjamenn, þar á meðal eitt þriggja ára gamalt barn.

Ísrael hefur birt lista yfir 300 palestínska fanga sem verma ísraelsk fangelsi en eiga nú möguleika á því að fá lausn í skiptunum. Alls eru 150 palestínskir fangar sem fá lausn í þessum skiptum. Á þessum lista eru langflestir piltar, 16-18 ára. Þeir yngstu er 14 ára gamlir. Af 300 manna lista eru 33 konur.

Algengustu ástæður þess að þetta fólk er í haldi eru ásakanir Ísraelsmanna um að það hafi grýtt fólk og ógnað þjóðaröryggi Ísraels. Aðrir ástæður eru stuðningur við hryðjuverkasamtök, ólögleg eign vopna og hvatning til ofbeldis. Í frétt AFP kemur fram að 49 af þessum 300 föngum séu Hamasliðar, 60 fangar hluti af Fatah, flokknum sem ræður ríkjum á Vesturbakkanum.

Gert er ráð fyrir því að vopnahléið taki gildi á föstudag og muni gilda í fjóra daga. Ísraelsk stjórnvöld hafa gefið það út að mögulega verði hægt að gera annað tímabundið vopnahlé, ef þetta gengur eftir áætlun, til að fá heim fleiri gísla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka