Hryðjuverkasamtökin Hamas segjast hafa sleppt 20 gíslum, 13 Ísraelsmönnum og 7 erlendum ríkisborgurum, til Rauða krossins samkvæmt samkomulagi við Ísrael.
Skiptin áttu sér stað „í tengslum við vopnahlé af mannúðarástæðum,“ að því er segir í tilkynningu frá Hamas.
Hamas ásökuðu Ísrael í dag um að að hleypa ekki hjálpargögnum inn á Norður-Gasa og brjóta þannig gegn samkomulagi um fjögurra daga vopnahlé. Ísraelsk stjórnvöld þvertóku fyrir ásakanirnar.
Hamas sögðu seinna í kvöld í yfirlýsingu að þau hafi tekið vel í tillögur milligöngumanna frá Egyptalandi og Katar, sem hafi sýnt fram á loforð Ísraelshers til þess að „uppfylla öll skilyrði samkomulagsins“.
Uppfært klukkan 21.37
Að sögn BBC er deilt um fjölda erlendra gísla sem Hamas hefur sleppt. Katar segja að gíslarnir séu fjórir en Hamas segja að þeir séu sjö.
Ekki er deilt um hversu mörgum gíslum frá Ísrael hefur verið sleppt í kvöld, alls 13.
Uppfært klukkan 21.50
Ísraelski herinn hefur staðfest að Hamas hefur sleppt úr haldi 13 gíslum frá Ísrael og fjórum öðrum frá Thailandi.
Rauði krossinn flutti gíslana yfir til Egyptalands og eru þeir nú á leið til Ísrael.
Uppfært klukkan 22.35
Gíslarnir sem hefur verið sleppt eru nú komnir á ísraelskt landsvæði að sögn ísraelska hersins.
Fólkið verður flutt á spítala í Ísrael þar sem það fær að hitta ástvini sína.