Vladimír Pútín Rússlandsforseti lenti í Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum fyrr í dag í sjaldgæfri heimsókn utan ríkja fyrrum Sovétríkjanna.
Þetta hefur AFP eftir rússneskum miðlum.
Sagt er að Rússland hyggist koma sér aftur á alheimskortið. Pútín mun hitta Mohammed bin Zayed al-Nahyan, forseta landsins, áður en hann ferðast til Riyadh í Sádí-Arabíu þar sem hann mun hitta krónprinsinn, Mohammed bin Salman, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kreml.
Heimsókn Pútíns verður fylgt eftir með heimsókn Ebrahim Raisi, forseta Íran, til Moskvu á morgun. Íranir eru lykilvopnabirgjar Rússa í árásarstríði þeirra í Úkraínu.
„Vél Pútíns er lent í Abú Dabí,“ greindi rússneski ríkismiðillinn RIA Novosti frá og sýndi hvar embættismenn tóku á móti forsetanum á flugbrautinni.