Forseti háskólans í Pennsylvaníu, eða UPenn eins og hann er gjarnan kallaður, Elizabeth Magill, hefur sagt af sér í kjölfar vitnisburðar síns fyrir þingnefnd um meinta gyðingaandúð á háskólasvæðinu.
Magill, sat fyrir svörum á þriðjudaginn ásamt forseta Harvard háskóla, Claudine Gay, og Sally Kornbluth, forseta tækniháskólans í Massachusetts (MIT) og svaraði spurningum um gyðingaandúð í háskólanum.
Þótti mörgum svör forsetana þriggja ekki fullnægjandi og þær koma sér undan því að svara þingkonu Repúblikana, Elise Stefanik, um hvernig viðurlögum yrði háttað gegn þeim nemendum sem kölluðu eftir þjóðarmorði á gyðingum.
Magill ásamt hinum forsetunum sagði það velta á samhenginu.
Milljarðamæringurinn og fyrrverandi nemandi UPenn, Ross Stevens, hótaði í kjölfarið að draga til baka 100 milljóna dollara framlag sitt til skólans.
Er fram kemur í frétt The Guardian vísaði þingkonan í spurningum sínum til forsetanna ítrekað til notkunar mótmælenda á slagorðum eins og „Það er aðeins ein lausn: intifada, uppreisn“ og „alþjóðavæðum intifada“.
Merking hugtaksins intifada hefur víða verið umdeild en orðið þýðir á arabísku að „hrista af sér“ og er lykilhugtak í samtímanotkun á arabísku sem vísar til uppreisnar gegn kúgun, eða að hrista af sér kúgun.
Hefur slagorðið verið notað í ýmsum uppreisnum og mótmælum víða og hefur verið notað í palestínsku samhengi til að mótmæla hernámi Ísraelshers í Palestínu.
Þykir mörgum hins vegar, líkt og Stefanik, slagorðið ýja að eða hvetja til ofbeldis, hryðjuverka og gyðingaandúðar.
Bæði Magill og Gay, forseti Harvard, hafa síðar beðist afsökunar á ummælum sínum. Kvaðst Magill hafa einblínt á reglur skólans í svörum sínum, sem séu í samræmi við stjórnarskrá landsins og kveði á um málfrelsi.
Stjórn MIT háskólans hefur hins vegar lýst yfir stuðningi við forseta skólans, Sally Kornbluth, og segja hana hafa unnið frábært starf við að leiða háskólasamfélagið, þar á meðal við að takast á við gyðingahatur, íslamfóbíu og annars konar hatur, sem MIT hafni alfarið.
Í kjölfar uppsagnar Magill, birti Stefanik færslu á X-reikningi sínum þar sem hún fagnaði afsögn forsetans.
„Ein farin, tvær eftir.“