Aðstoð til Úkraínu: Ungverjar beittu neitunarvaldi

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á fundi Evrópuráðsins í gær.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á fundi Evrópuráðsins í gær. AFP

Ungverjar beittu neitunarvaldi þegar leiðtogar Evrópusambandsins (ESB) kusu um 50 milljarða evra aðstoð til handa Úkraínu á fundi Evrópuráðsins í Brussel í gær. Nokkrum klukkustundum áður náðu þeir samkomulagi um að hefja aðildarviðræður við Úkraínu.

BBC greinir frá.

Vonast til að semja snemma á næsta ári

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, tilkynnti um ráðstöfun Ungverja að loknum viðræðunum í gær, skömmu eftir að leiðtogar ESB ákváðu að hefja aðildarviðræður við Úkraínu og Moldavíu og veita Georgíu stöðu umsækjanda.

„Samantekt á næturvaktinni: Neitunarvald fyrir aukafjárframlög til Úkraínu,“ sagði hann.

Leiðtogar ESB sögðu að samningaviðræður um aðstoð myndu hefjast að nýju snemma á næsta ári.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði um andstöðu Orbans við aðstoðina til handa Úkraínu að enn væri tími til stefnu. „Úkraína er ekki uppiskroppa með fjármagn á næstu vikum.

26 ríki voru sammála. Ég er nokkuð viss um að við getum náð samningum snemma á næsta ári.“

Í lífshættu ef vestræn ríki aðstoða ekki áfram

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, lýsti ákvörðun ESB um aðildarviðræður sem „sigri“.

Í síðustu viku varaði Olena, forsetafrú Úkraínu, við því í viðtali á BBC að Úkraínumenn væru í lífshættu ef vestræn ríki héldu ekki fjárhagslegum stuðningi sínum áfram.

Úkraína leitar einnig eftir samþykki á hjálparpakka frá Bandaríkjunum sem nemur 61 milljarði Bandaríkjadala. Ágreiningur ríkir milli demókrata og repúblikana á bandaríska þinginu um aðstoðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert