Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, vottaði fjölskyldum ísraelsku gíslanna, sem ísraelskir hermenn skutu til bana í dag, samúð sína.
Hann sendi frá sér yfirlýsingu vegna atburðarins sem átti sér stað í Shejaiya-hverfinu í Gasa, í kvöld. Mennirnir þrír sem voru skotnir höfðu verið í haldi Hamas-hryðjuverkasamtakanna.
Talið er að þeir hafi annað hvort sloppið eða verið yfirgefnir af hryðjuverkamönnunum sem héldu þeim föngnum.
Í yfirlýsingu forsætisráðherrans segir hann um óbærilegan harmleik að ræða.
„Öll þjóðin syrgir þetta kvöld. Ég votta syrgjandi fjölskyldum samúð mína á erfiðum tímum,“ segir í tilkynningu Netanjahú, en ísraelsk stjórnvöld hafa ítrekað lýst því yfir að það að koma öllum gíslunum heim sé eitt meginmarkmiða hennar í stríðinu sem nú geisar fyrir botni Miðjarðarhafs.
Forsvarsmenn Hvíta hússins í Bandaríkjunum hafa einnig sent frá sér tilkynningu varðandi atvikið þar sem segir að dauði gíslanna þriggja hafi verið skelfileg mistök.
„Við getum ekki sagt nákvæmlega til um það hvernig þessi aðgerð þróaðist og hvernig þessi hörmulegu mistök áttu sér stað,“ er haft eftir John Kirby, talsmanni Hvíta hússins, í umfjöllun frönsku fréttaveitunnar AFP.