Að minnsta kosti 118 manns eru látnir og mörg hundruð til viðbótar slasaðir eftir að mannskæðasti jarðskjálfti í áraraðir reið yfir í norðvesturhluta Kína.
Ráðamenn í héraðinu Gansu segja að skjálftinn, sem varð skömmu fyrir miðnætti og mældist um 6 að stærð, hafi orðið að minnsta kosti 105 að bana og slasað næstum 400 manns.
Til viðbótar létust 13 manns, 182 slösuðust og 20 er saknað í borginni Haidong í nágrannahéraðinu Qinghai, að sögn ríkisfjölmiðilsins CCTV.
Skjálftinn skemmdi þúsundir heimila og hljóp fjöldi íbúa út á götur.
Þetta er mannskæðasti jarðskjálfti í Kína síðan að minnsta kosti árið 2014 þegar yfir 600 manns fórust í héraðinu Yunnan í suðvesturhluta Kína.