Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir Donald Trump bersýnilega hafa stutt atlöguna sem gerð var að þinghúsinu þar í landi í janúar árið 2021.
Biden lét ummæli sín í garð Trump falla í kjölfar þess að æðsti dómstóll Colorado-ríkis komst að þeirri niðurstöðu að Bandaríkjaforsetinn fyrrverandi mætti ekki taka þátt þar í forkosningum forsetakjörs sem hefjast á næsta ári.
„Ég leyfi dómstólnum að taka þessa ákvörðun,“ sagði Biden á blaðamannafundi í dag. „En hann studdi vissulega uppreisnina, það er engin spurning.“
Biden, sem atti kappi við Trump í forsetakosningunum árið 2020, segir það sjálfsagt að Trump fái ekki að bjóða sig fram í Colorado.
Hann er líklegur til þess að mæta Trump að nýju á næsta ári.
Ummæli Bidens þykja athyglisverð vestanhafs, en hann hefur örsjaldan tjáð sig opinberlega um þau fjölmörgu mál sem hrannast hafa upp gegn Trump að undanförnu.
Skoðanakannanir sýna fram á að mjótt sé á mununum milli keppinautanna tveggja og hefur Biden því gripið til þess að tjá sig frekar um atferli Trumps á opinberum vettvangi.
Í samtali við fjölmiðla sagði Biden að Trump væri helsta ógnin við lýðræði Bandaríkjanna. „Vegna þess að ef við töpum, töpum við öllu,“ er haft eftir honum í umfjöllun AFP.
„Þetta er fyrrverandi forseti sem í raun játar og hvetur til ofbeldis gegn sambræðrum sínum í Bandaríkjunum. Það er fyrirlitlegt.“