Úkraína heldur jól í desember í fyrsta skiptið

AFP

Á morgun munu úkraínskir rétttrúnaðarmenn í fyrsta skiptið halda upp á jólin þann 25. desember, frekar en 7. janúar.

Að siðvenju hafa jólahátíðarhöld Úkraínumanna fylgt júlíanska tímatalinu, sem og Rússa, þar sem jólin eru haldin þann 7. janúar. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Til þess að aðskilja sig enn meir frá Rússlandi, sem réðst inn í Úkraínu í fyrra, hafa Úkraínumenn tekið upp vestræna hefð og haldið jólin samkvæmt gregoríska tímatalinu, þar sem jóladagur fellur á 25. desember hvers árs.

AFP

Halda sig fjarri hinum „rússneska arfi“

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti lét breyta lögum í landinu í júlí í ár. Hann vildi meina að þetta gerði Úkraínumönnum kleift að „yfirgefa rússneska arfinn“ að fagna jólunum í janúar.

Forsetinn sagði í jólakveðjum til sinna landsmanna að allir Úkraínumenn væru nú sameinaðir: „Við fögnum öll jólunum saman. Á sama degi, sem ein stór fjölskylda, sem ein þjóð, sem eitt sameinað land.“

Heldur loksins upp á jólin á sama tíma og eiginmaðurinn

Fjölmiðillin Reuters tók viðtal við hjónin Lesiu Shestakova og Oleksandr Shestakov Í Kænugarði, hinn síðarnefndi er rétttrúnaðarmaður.

Parið hefur hingað til farið í jólamessu á mismunandi dögum, hvort með sínum foreldrum.

„Loksins er dagur í Úkraínu sem ég og eiginmaðurinn getum varið saman í krikjunni og þakkað guði að við séum saman, lifandi og í góðri heilsu,“ sagði Lesia við Reuters.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert