Ísraelsher hélt í morgun áfram árásum sínum á stærstu borgina á suðurhluta Gasasvæðisins, Khan Yunis, og á flóttamannabúðir.
Heilbrigðisráðuneyti Hamas segir að yfir 21 þúsund manns hafi verið drepnir síðan átökin hófust á Gasasvæðinu fyrir 11 vikum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, varaði í gær við því að íbúar Gasasvæðisins væru í „alvarlegri hættu”, auk þess sem forseti Frakklands kallaði eftir langvarandi vopnahléi.
Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði í gær að árásirnar á flóttamannabúðirnar í miðhluta Gasasvæðisins hefðu staðið yfir í þrjá daga og að aukinn mannskapur hefði verið sendur til Khan Yunis. Hann gaf einnig í skyn að mögulega myndu átök harðna í norðri meðfram landamærunum að Líbanon.
Þar hafa hermenn Ísraels og vígamenn Hezbollah-samtakanna skipst á skotum eftir að átökin á Gasasvæðinu brutust út.