Vegna nálægðar við Rússland verða Finnar fyrsta þjóðin til að sæta afleiðingum ef spennan stigmagnast á milli Rússlands og Atlantshafsbandalagsins (NATO). Þetta hafði rússneska RIA-fréttaveitan eftir háttsettum rússneskum diplómata í dag.
Finnar gengu í NATO fyrr á þessu ári eftir að hafa haldið hlutleysi sínu í áratugi og sú ákvörðun Finna að ganga í bandalagið féll í grýttan jarðveg hjá Rússum.
„Þeir höfðu lifað rólega og friðsamlega en enduðu allt í einu á milli Rússlands og NATO sem aðilar að því bandalagi. Ef það verður stigmögnun verða þeir fyrstir til að þjást,“ sagði Míkhaíl Úljanov, fastafulltrúi Rússlands hjá alþjóðastofnunum í Vínaborg, við RIA-fréttaveituna.