Nauðganir og hrottalegt kynferðisofbeldi af hálfu hryðjuverkasamtakanna Hamas, í árásum á ísraelskri grundu þann 7. október, eru umfangsmeiri en látið var fyrst í ljós að því er ísraelskur sjálfboðaliði greinir frá í umfjöllun The Telegraph.
Haim Otmazgin var í hópi sjálfboðaliða sem söfnuðu saman jarðneskum leifum íbúa ísraelska þorpsins Be'eri sem varð einna verst undir árásum Hamas-samtakanna. Hann segir ljóst að árásirnar einkennist af kynbundnu ofbeldi.
Varað er við lýsingum í fréttinni.
Otmazgin sagðist ekki hafa auga fyrir smáatriðum en hann hafi þó tekið eftir því þegar lík konu lá nærri vegkanti nærri árásarsvæði Hamas, með skotsár á höfði og brjósti. Þá hafi gallabuxur hennar verið blóðrauðar í klofinu og bolur sem hún klæddist rifinn í sundur.
Sum sönnunargögn á borð við þessi líti nú fyrst dagsins ljós þar sem óðgagot hafi gripið um sig hjá stjórnvöldum í kjölfar árásanna.
Lýsir Otmazgin því að sjónin sem mætti honum í Be'eri væri ein sú versta sem hann hefði séð á sínum 27 ára ferli í starfinu. Fyrst hafi hann verið sendur í hús þar sem tvö illa leikin lík af konum blöstu við honum.
„Ég kom inn í öryggishvelfingu þar sem ég sá lík af tveimur konum sem höfðu verið skotnar í höfuðið. Í öðru herbergi kom ég að líki ungrar konu. Það hafði verið girt niður um hana og hún lá á rúminu með skotsár á höfði.“
Þá hafi hann hreinsað upp annað lík af konu sem var alveg án fata. Annað kvenmannslík hafi verið með aðskotahlut í klofi sem leit út eins og hnífur. Þegar Otmazgin var við sjálfboðastörfin var herstöð Ísraelsmanna sem tók við líkunum þegar undir miklu álagi.
Þrátt fyrir að kynferðisofbeldið hafi sætt lítilli rannsókn sé ljóst að kynbundið ofbeldi hafi sett mark sitt á árásir Hamas en sannanir þess efnis hafi komið fram á yfir 7 átakasvæðum. Myndskeið af árásum Hamas sýni að konur hafi verið skotnar í klof og stungnar með nöglum þangað og í lærin.
Verstu dæmin hafi verið frá útihátíðinni Supernova, þar sem Hamas gerðu árás en myndskeið sýna hópnauðganir og Hamas-liða skera brjóstin af veislugestum með hlátur í bakgrunni.
Árásirnar hafi haft slæm áhrif á Otmazgin, sem segist vanur því að sjá lík, það komi honum ekki úr jafnvægi.
„En ég snerti ekki sígarettur á síðasta ári. Núna reyki ég þrjá pakka á dag og hef misst átta kíló.“