Helkuldi er um alla Skandinavíu og berst með ísköldu lofti frá Síberíu með margvíslegum afleiðingum. Í Noregi hefur kyngt niður snjó frá því um helgina og akstursskilyrði víða verið þung auk þess sem kennsla mun ekki hefjast í skólum í stærstu bæjarfélögum Suður-Noregs, Kristiansand, Arendal og Grimstad, á fimmtudag svo sem ætlunin var.
Þá hafa íbúar þar á svæðinu setið innilokaðir í húsum sínum vegna fannfergis og sumir mátt notast við gluggana til að komast út og inn. Strætisvagnar í Kristiansand hafa ekki gengið í dag, heldur ekki lestir milli Óslóar og Kristiansand en á fyrrnefnda staðnum spá veðurfræðingar því að nú í vikunni mælist þar mesti kuldi í fjórtán ár – síðan árið 2010.
Neyðarviðbragðsaðilar hafa þá biðlað til almennings að hringja ekki eftir hjálp nema fólk telji sig í verulegum háska, símalínur þeirra séu rauðglóandi og full þörf á forgangsröðun. Leigubifreiðastöðvar forgangsraða einnig og segja einfaldlega nei við fjölda viðskiptavina til að geta einbeitt sér að verkefnum sem tengjast flutningi sjúklinga og annarra sem þurfa aðstoð heilbrigðiskerfisins.
Að sögn Pernille Borander, veðurfræðings norsku veðurstofunnar, hefur nú dregið úr snjókomu en í Suður-Noregi hefur blásið hressilega og því verið mikið um skafrenning auk þess sem snjór hefur fokið í skafla víða. Reiknar Borander með því að hvasst verði fram á föstudag.
Þá hefur rafmagn víða farið af í kuldanum og voru tæplega 2.000 íbúar í Agder-fylki án rafmagns um klukkan 14 í dag að norskum tíma.
Nágrannarnir í suðri, Danir, hafa heldur ekki farið varhluta af kuldakastinu en á Austur- og Norður-Jótlandi og Norður-Sjálandi hefur snjóað án afláts í rúmlega hálfan annan sólarhring og snjórinn fokið í háa skafla í vindinum sem næðir um Dani eins og Norðmenn.
Á Tirstrup-flugvellinum í Árósum og þar um kring hefur snjóað látlaust frá því fyrir miðnætti í gærkvöldi og hefur skyggni á vellinum ítrekað farið niður í um 100 metra. Segja danskir veðurfræðingar lægðina þokast í suðurátt og fara inn yfir norðurhluta Þýskalands á fimmtudagsmorgun.
Á Austur- og Norður-Jótlandi hefur heimahjúkrun gengið erfiðlega og sveitarfélagið Hjørring til dæmis brugðið á það ráð að hvetja ættingja og nágranna sjúkra til að koma þeim til aðstoðar sé þess nokkur kostur.
„Við höfum fengið aðstoð hvort tveggja frá fjölskyldum íbúanna og eins frá sjálfboðaliðum sem gjarnan vilja veita aðstoð í sínum hverfum,“ segir Susanne Damgaard, svæðisstjóri heimahjúkrunar í Hjørring, við danska ríkisútvarpið DR.
Í Svíþjóð hefur hitastig farið niður í um 40 stig í mínus en kaldast mældist það -41,6 gráður í Nikkaluokta í Norður-Svíþjóð í gærmorgun. Gul viðvörun er í gildi í höfuðborginni Stokkhólmi vegna fannfergis og hafa samgöngutruflanir komið upp víða.
Í morgun féll gámur af flutningabifreið á E18-brautinni við Jakobsberg og lokaði tveimur af þremur akreinum. Tæpa klukkustund tók að færa gáminn og koma umferð í eðlilegt horf á ný. Almenningssamgöngur í Stokkhólmi hafa gengið úr skorðum og víða hafa strætisvagnar þurft að aka fram hjá biðstöðvum vegna hálku þar og hættunnar við að stöðva vagnana. Þetta segir Sophie Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Storstockholms Lokaltrafik, sem rekur almenningssamgöngunet borgarinnar, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT.