SpaceX hefur verið sakað um ólögmætar uppsagnir á átta starfsmönnum sem gagnrýndu forstjóra fyrirtækisins og milljarðamæringinn Elon Musk.
Bandarískt verkalýðsfélag sem lagði fram kvörtunina sagði starfsmennina hafa sent opið bréf til nokkurra framkvæmdastjóra fyrirtækisins árið 2022 þar sem lýst var yfir áhyggjum sem tengdust vinnustaðnum.
Í bréfinu var Musk sagður „truflandi fyrir aðra og til skammar”, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Verkalýðsfélagið sakar SpaceX um að hafa brotið á réttindum starfsmannanna þegar kemur að lögum sem leyfa starfsmönnum að benda í sameiningu á betra vinnuumhverfi.
Fram kemur í kvörtun félagsins að þeir sem sendu opna bréfið hefðu verið yfirheyrðir áður en þeim var sagt upp.
Lögmenn eins fyrrverandi starfsmannanna, Deborah Lawrence, saka SpaceX um „eitraða menningu” þar sem ekkert er amast við áreitni í garð starfsmanna.