Varnarmálaráðherra Ísraels hefur í fyrsta sinn greint frá ætlunum um hvernig stjórnarhættir skulu verða á Gasasvæðinu. Hann segir að hvorki Ísraelar né Hamas-samtökin muni stjórna svæðinu eftir að átökum þar lýkur.
Í áætluninni sem Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, lét blaðamönnum í té sagði: „Hamas mun ekki stjórna Gasa og Ísrael mun ekki stjórna almennum borgurum á Gasa”.
„Íbúar Gasa eru Palestínumenn og þess vegna munu Palestínumenn fara með stjórnina með þeim skilyrðum að engin ógn eða hótanir verða gegn Ísraelsríki,” sagði þar einnig.
Miklar vangaveltur hafa verið uppi um framtíð Gasasvæðisins á sama tíma og ákall um vopnahlé hefur verið hávært. Hundruð þúsunda manna hafa misst heimili sín og búist er við því að hungursneyð og sjúkdómar muni brjótast út.
Samkvæmt áætluninni, sem ekki er komin til framkvæmda, mun hernaður Ísraela á Gasasvæðinu halda áfram þangað til gíslarnir sem Hamas-liðar tóku höndum 7. október verða látnir lausir og Hamas-samtökin hafa verið stöðvuð.