Loka fyrir umferð með dráttarvélum

Mótmæli við Brandenborgarhliðið í Berlín.
Mótmæli við Brandenborgarhliðið í Berlín. AFP/John Macdougall

Þýskir bændur hafa lokað fyrir umferð á vegum víðsvegar um Þýskaland. Aðgerðir hófust í gær, mánudag, en bændur mótmæla áformum stjórnvalda um að draga úr stuðningi til landbúnaðar. 

Mótmælendur notuðu dráttarvélar og vöruflutningabíla til að loka fyrir umferð. Þessar aðgerðir voru upphaf vikulangra mótmæla bænda.

Hætta niðurgreiðslu á eldsneyti og skattaívilnunum

Mótmælin hófust í kjölfar áforma stjórnvalda um að hætta að veita bændum skattaívilnanir fyrir vélar og farartæki sem notuð eru í landbúnaði og áætlun um að draga úr niðurgreiðslum á eldsneyti.

Aðgerðirnar voru tilkynntar í kjölfar þess að dómstóll úrskurðaði fjárlög þýsku ríkisstjórnarinnar fyrir 2024 ólögleg.

Stjórnvöld draga til baka

Stjórnvöld hafa dregið hluta áforma sinna til baka eftir hörð viðbrögð bænda. Tillaga um að binda enda á skattaívilnun bænda á dísilolíu hefur verið breytt og er nú stefnt á að innleiða tillöguna í áföngum yfir þriggja ára tímabil.

Ríkisstjórnin féll einnig frá áformum sínum um að afnema ívilnun á bifreiðagjöldum.

Þrátt fyrir þessi svör ríkisstjórnarinnar hafa bændur ekki látið af aðgerðum. Talsmenn bænda segja breytingarnar ekki ganga nógu langt og hvöttu ríkisstjórnin til að falla alfarið frá áformum sínum.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands. AFP/Kenzo Tribouillard

Kjaraviðræður hafa áhrif á stjórnmálin

Kjaraviðræður hafa gengið illa í Þýskalandi, sem er stærsta hagkerfi í Evrópu. Slakur vöxtur og miklar verðhækkanir hafa áhrif.

Járnbrautarstarfsmenn munu hefja verkfall á miðvikudag sem á að standa yfir í þrjá daga. Verkalýðsfélög kalla eftir launahækkunum til að bæta upp fyrir margra mánaða verðbólgu.

Fylgi ríkisstjórnarflokkana hefur farið minnkandi og telja margir stöðuna á vinnumarkaði styrkja vöxt flokka lengst til hægri í Þýskalandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert