Ný löggjöf sem bannar ræktun, slátrun og sölu hunda til kjötframleiðslu, hefur verið einróma samþykkt á suður-kóreska þinginu.
Hefð hundaáts hefur lengi verið umdeild í landinu og hafa margir dýraaðgerðarsinnar kallað það þjóðarskömm að framleiðsla kjötsins sé enn heimil.
Hundakjöt er hluti af hefðbundinni kóreskri matreiðslu en hefur í nokkra áratugi talist tabú þá sérstaklega á meðal yngra fólks í stórborgum landsins. Ný könnun í landinu leiddi í ljós að 9 af 10 Kóreumönnum myndi ekki borða hundakjöt, eftir að frumvarpið var samþykkt.
Hundakjöt var áður álitið lostæti sem yfirleitt er soðið og borið fram á sumrin. Er talið að fitumikið og rautt kjötið auki orku fólks í sumarhitanum.
Í ljósi nýrrar löggjafar mun nú vera refsivert að rækta, slátra eða selja hunda til kjötframleiðslu og getur fólk átt yfir höfði sér þriggja ára fangelsisdóm og sekt upp á 30 milljónir won, eða rúmar þrjár milljónir íslenskra króna.
Fyrri tilraunir til að banna hundakjöt hafa mætt mikilli andstöðu bænda sem rækta hunda til áts, en um 1.100 hundaræktunarstöðvar eru í landinu. Nýja löggjöfin kveður aftur á móti á um bætur til hundabænda til að hverfa frá iðnaðinum.
Nýja löggjöfin mun þó ekki taka gildi fyrr en eftir þrjú ár og eftir að forseti landsins Yoon Suk Yeol hefur samþykkt hana.
Opinber stuðningur við hundakjötsbann hefur vaxið undir stjórn Yoon, sem er yfirlýstur dýravinur en hann og forsetafrúin, sem hefur verið harður gagnrýnandi á hundakjötsneyslu, hafa tekið að sér þó nokkra flækingshunda og -ketti.