Forsetafrúin segir aldur eiginmannsins vera kost

Jill Biden varði eiginmann sinn í viðtali í dag.
Jill Biden varði eiginmann sinn í viðtali í dag. AFP/Mandel Ngan

Jill Biden, forsetafrú Bandaríkjanna, tók til varna fyrir Hunter Biden, son Joe Bidens Bandaríkjaforseta, í viðtali í dag. Forsetafrúin fór um víðan völl í viðtalinu og sagði meðal annars aldur eiginmanns hennar væri kostur.

„Ég held að það sem þeir eru að gera við Hunter sé grimmt,“ sagði Jill Biden í spjallþættinum Morning Joe á MSNBC. „Og ég er virkilega stolt af því hvernig Hunter hefur endurbyggt líf sitt eftir fíkn,“ sagði Jill Biden en Hunter hefur áður glímt við fíknisjúkdóma.

Jill Biden hefur verið að koma meira fram í sviðsljósið að undanförnu eins og á það til að gerast þegar nær dregur forsetakosningum í Bandaríkjunum. Hún hefur þó hingað til ekki tjáð sig um stjúpson sinn hann Hunter, en fortíð hans hefur verið forsetanum til vandræða.

Ákærður fyrir skattsvik

Repúblikanar hafa sakað Hunter Biden um að hafa notað fjölskyldunafnið á meðan Joe Biden var varaforseti til að fá greiðslur og sæti í stjórnum fyrirtækja víðs vegar um heiminn gegn því að heita aðgang að sjálfum Joe Biden.

Segja Repúblikanar einnig að Joe Biden hafi hagnast á þessum viðskiptum sonar síns. Þar að auki hefur Hunter Biden verið ákærður fyrir skattsvik og ólöglega byssueign.

„Þú veist, ég elska son minn. Og þetta hefur sært barnabörnin mín, og það er það sem ég hef svo miklar áhyggjur af. Þetta hefur líka áhrif á líf þeirra,“ sagði hún um ásakanir Repúblikana.

Segir Joe Biden hafa „lifað söguna“

Í viðtalinu varði hún eiginmann sinn vegna áhyggjum yfir aldri hans, en hann er nú þegar elsti forseti í sögu Bandaríkjanna og yrði 86 ára í lok annars kjörtímabils. Kannanir sýna aldurinn er mikið áhyggjuefni meðal kjósenda.

„Ég sé kraftinn hans, ég sé orku hans, ég sé ástríðu hans á hverjum einasta degi,“ sagði hún.

„Ég segi að aldur hans sé kostur – hann er vitur. Hann hefur reynslu. Hann þekkir alla leiðtoga á alþjóðavettvangi. Hann hefur lifað söguna. Hann þekkir söguna,“ sagði Jill Biden um eiginmann sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert