Stærsta heræfing NATO síðan í kalda stríðinu fram undan

Höfuðstöðvar NATO í Brussel.
Höfuðstöðvar NATO í Brussel. Ljósmynd/NATO

Atlantshafsbandalagið (NATO) segir að stórfelld heræfing hefjist í næstu viku. Alls munu um 90 þúsund hermenn taka þátt í æfingunni og verða æfð viðbrögð við ófriði gegn mögulegum andstæðingi eins og Rússlandi.

Æfingunni hefur verið gefið heitið Bjargfasti varnarmaðurinn (e. Steadfast Defender) og heldur æfingin áfram fram í maí.

Svíar taka þátt

Allar bandalagsþjóðirnar, alls 31 talsins, mun koma að æfingunni. Svíþjóð, sem sótt hefur um aðild að varnarbandalaginu og bíður nú inngöngu, mun einnig taka þátt í æfingunni.

Heræfingin verður samsett úr fjölda minni æfinga og ná þær yfir landssvæði allt frá Norður Ameríku til austurhluta bandalagsins, nærri landamærum Rússlands.

Að æfingunni koma 50 sjóför, 80 loftför og ríflega 1.100 vélknúinn farartæki ætluð í hernað.

Rob Bauer, aðmíráll og formaður her­mála­nefnd­ar Atlants­hafs­banda­lags­ins (NATO).
Rob Bauer, aðmíráll og formaður her­mála­nefnd­ar Atlants­hafs­banda­lags­ins (NATO). Ministerie van Defensie, CC0, via Wikimedia Commons

Sú stærsta síðan á tímum Sovétríkjanna

Æfingin verður sú allra stærsta frá árinu 1988, þegar Sovétríkin sálugu voru og hétu. Er æfingin til marks um breytt viðbragð bandalagsins og svar við innrás Rússa í Úkraínu.

Fjölda hersveita bandalagsins má nú finna í austurhluta þess og eru þess búnar að geta brugðist við árás frá Rússlandi.

Rob Bauer, aðmíráll og formaður hermálanefndar NATO, segir æfinguna til marks um hve vel bandalagið sé undirbúið fyrir átök. „Við getum teflt fram metfjölda hermanna og æft með þeim aðgerðir sem teygja sig um bandalagið allt, yfir hafið, frá Bandaríkjunum til Evrópu.“

F-16 orustuþota Bandaríkjahers.
F-16 orustuþota Bandaríkjahers. AFP

Bandalagsþjóðir þurfa að vera undirbúnar fyrir stríð

Bauer minnti á að almennir borgarar í ríkjum Atlantshafsbandalagsins ættu að undirbúa sig betur fyrir möguleg átök við Rússland. „Friður er ekki sjálfgefið ásand og því búum við okkur undir stríð.“ Hann bætti við: „Við leitum ekki átaka, en ráðist þeir á okkur þá verðum við að vera undir það búin.“

Bauer sagði landher Rússa laskaðan eftir stríðið í Úkraínu, en bæði sjó- og flugher Rússa sé enn nokkuð sterkur. Hann segir hergagnaöflun ganga illa hjá rússneskum stjórnvöldum vegna viðskiptaþvingana vesturvelda en þó hafi tekist að koma skotvopna- og eldflaugaframleiðslu á nokkuð skrið þar í landi.

Hann sagði víglínuna í Úkraínu lítið þokast, þrátt fyrir að þar væri enn barist af mikilli hörku. „Þótt að nýlegar árásir Rússa valdi miklum skaða þá hafa þær lítið hernaðarlegt gildi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert