Hafnar tillögum bandamanna um tveggja ríkja lausn

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, er ekki hlynntur tveggja ríkja lausn.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, er ekki hlynntur tveggja ríkja lausn. AFP/ronen Zvulun

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, fullyrðir að hann hafi mótmælt tillögu Bandaríkjamanna um stofnun Palestínuríkis þegar átökunum linnir á Gasasvæðinu.

Á blaðamannafundi hét forsætisráðherrann því að halda áfram árásum á Gasasvæðinu þar til algjör sigur hefði náðst. Taldi hann átökin geta dregist áfram í marga mánuði.

85% íbúa á vergangi og 25 þúsund látin

Hamas-samtökin segja Ísraelsher hafa drepið 25 þúsund Palestínumenn á Gasa, og um 85% íbúa svæðisins vera á vergangi.

Mikill þrýstingur hefur verið á stjórnvöld í Ísrael að leggja niður vopn og taka þátt í viðræðum um hvernig megi binda endir á átökin með raunsæjum hætti.

Bandamenn Ísraela, þar á meðal Bandaríkin, og óvinaríki hafa hvatt til hinnar svokölluðu tveggja ríkja lausnar. Netanjahú hefur þó ekki tekið vel í þá hugmynd.

Segir stofnun Palestínuríkis ógna öryggi

Á blaðamannafundinum í gær sagði hann Ísrael verða að hafa fulla stjórn á svæðinu vestur af ánni Jórdan, þar á meðal landsvæðinu þar sem Palestínuríkið yrði staðsett.

„Þetta er nauðsynlegt fyrirkomulag og stangast á við hugmyndina um fullveldi Palestínu,“ sagði Netanjahú á blaðamannafundinum, og bætti við að hann hefði einnig tjáð „bandarísku vinum sínum“ afstöðu sína. Myndi stofnun Palestínuríkis ógna öryggi Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert