Tyrkneska þingið hefur samþykkt að veita Svíum aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).
Atkvæðagreiðslunni lauk í kvöld en alls greiddu 287 þingmenn atkvæði með aðildinni.
Svíar eru nú skrefi nær því að verða 32. ríkið til að ganga í hernaðarbandalagið en aðeins Ungverjar eiga eftir að samþykkja inngöngu þeirra.
Svíar sóttu um aðild að NATO í maí árið 2022, á sama tíma og Finnar. Umsóknin barst í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar sama ár. Til að veita inngöngu þurfa öll aðildarríki NATO að veita sitt samþykki.
Á síðasta ári fengu Finnar inngöngu en Svíar hafa átt erfiðara með að fá samþykki frá Ungverjum og Tyrkjum.
Í lok síðasta mánaðar samþykkti utanríkismálanefnd tyrkneska þingsins aðildarumsókn Svíþjóðar og í dag samþykkti þingið hana loks.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, bauð í dag Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, til Búdapest til þess að ræða aðild Svíþjóðar.
„Ég trúi því að öflugri viðræður gætu eflt traust milli ríkja okkar og stofnanna, og þannig gert okkur kleift að styrkja stjórnmála- og öryggisráðstafanir enn frekar,“ sagði m.a. í bréfi Orban til sænska forsætisráðherrans.
Talsmaður Kristersson vildi ekki tjá sig við fjölmiðla strax um boðið.