Óhöppin halda áfram hjá flugvélum frá bandaríska framleiðandanum Boeing en nýjasta atvikið átti sér stað á dögunum á alþjóðaflugvellinum í Atlanta í Georgíuríki í Bandaríkjunum.
Framhjól á þotu frá flugfélaginu Delta rann undan vélinni þegar vélin var að undirbúa flugtak en til stóð að fljúga til Kólumbíu. Vélin er af gerðinni Boeing 757.
Hjólbarðinn rúllaði eftir brautinni en eins og flestir þekkja er framhjólið undir fremsta hluta vélanna en síðan eru hjól sínu hvorum megin við miðju.
184 farþegar voru um borð og voru fluttir í aðra vél. Samkvæmt umfjöllun New York Times neitaði Boeing að tjá sig um atvikið en það mun vera til rannsóknar hjá flugmálayfirvöldum.