Rússneskur dómstóll hefur ákveðið að framlengja enn á ný gæsluvarðhald yfir bandaríska fréttaritaranum Evan Gershkovich um tvo mánuði, eða til 30. mars.
Gershkovich hefur setið í rússnesku fangelsi síðan í mars á síðasta ári.
Fréttaritarinn starfaði hjá bandaríska miðlinum Wall Street Journal (WSJ) og er hann kærður fyrir meintar njósnir. WSJ, bandaríska ríkið og Gershkovich hafna ásökunum alfarið.
Gershkovich starfaði sem fréttaritari í Moskvu fyrir WSJ og hélt áfram að segja fréttir frá landinu eftir að Rússland hóf innrásina í Úkraínu.
Gershkovich er fyrsti vestræni fréttaritarinn síðan á Sovétárunum sem hefur verið ásakaður fyrir njósnir og hefur hann setið í hinu alræmda Lefortovo-fangelsi, en fangelsið er sagt halda föngum sínum í nær algjörri einangrun.